Mig langar til að fljúga fjarstýrðri flugvél, hvernig byrja ég?
Gamalt máltæki segir "sígandi lukka er best". Þetta á vel við um módelflug, því auðvelt er að ætla sér um of. Ef vel á að takast til er mjög áríðandi að byrja rétt og og fara að ráðum þeirra sem náð hafa tökum á íþróttinni. Þess vegna er lang best að byrja á því að tala við þá sem hafa nokkra reynslu og hafa lært af öllum þeim mistökum sem þeir hafa gert. Til dæmis er fróðlegt að fara út á módelflugvöll á góðviðrisdegi og horfa á menn fljúga. Í góðum módelverslunum er oft starfsfólk sem getur veitt ráðleggingar, en best er að ræða við starfsmann sem sjálfur leggur stund á þessa íþrótt. Mörg tímarit um módelflug fást hér á landi, en þau eru flest á ensku. Síðast og ekki síst er rétt að gerast félagi í flugmódelfélagi og sækja fundi. Flugmódelfélagið Þytur er með símsvara, eða öllu heldur fréttastöð, í síma 562 29 10. Þar eru upplýsingar um það sem er á döfinni, svo sem mót og fundi. Prófaðu að hringja!
Hvernig byrjendamódel er best?
Bestu flugmódelin fyrir byrjendur hafa þann eiginleika að þau fljúga næstum sjálf. Ef flugmanni verða á mistök er oft nóg að sleppa stýripinnunum og módelið réttir sig af. Þannig flugmódel er háþekja (vængur ofan á skrokk) af miðlungsstærð. Vængur er flatbotna og án hallastýra. Módelið er smíðað úr balsa og með væng sem byggður er sem grind. Vængur er töluvert uppsveigður. Mótorstærð er um 6,5 rúmsentimetrar eða 0,40 rúmtommur, en þannig mótor er oft kallaður „40" mótor.
Hvort er betra að kaupa tilbúið módel eða smíða sjálfur?
Hægt er að kaupa meira og minna tilbúin módel sem aðeins þarf að setja fjarstýringu og mótor í. Kosturinn er vissulega sá að hægt er að gera módelið flughæft á einni viku, en ókostir eru samt ýmsir. Til dæmis er mun erfiðara að lagfæra þannig módel eftir óhapp en módel sem smíðað er úr balsa. Tilbúin módel eru auk þess töluvert dýrari en ósamsett. Byrjendum er því ráðlagt að smíða sjálfir sitt módel, enda veitir það einnig mun meiri ánægju, auk þess sem menn læra meira á því.
Er erfitt að smíða módel?
Það er ekki erfitt ef menn eru sæmilega handlagnir. Aðalatriðið er að gefa sér tíma og skoða vel leiðbeiningarnar áður en lím er borið á. Það er alveg ótrúlegt hvaða vitleysu hægt er að gera þegar maður er að flýta sér! Reikna má með að smíðatími byrjendamódels sé 50 til 70 tímar, eða t.d. 5 tímar á viku í 3 mánuði. Aðalatriðið er að vængurinn sé ekki undinn og að skrokkurinn líkist ekki banana. Það er ómögulegt að fljúga skökku módeli. Kennslumódel verða yfirleitt fyrir miklu hnjaski og láta fljótt á sjá, svo að ekki er þörf á að leggja mikla vinnu í skreytingar. Rétt er þó að klæða það í áberandi litum svo það sjáist vel. Til smíðinnar þarf þessi áhöld:
Hvaða stærð er hentugust?
Hentug stærð á byrjendamódeli er fyrir 6,5 rúmsentímetra (0,40 rúmtommu) mótor, eða svokallaðan „40" mótor. Vænghaf um 150 cm. Módel fyrir „25" eða minni mótor er óþægilega lítið.
Hvernig fjarstýringu er best að byrja með?
Til eru fjarstýringar af ýmsum gerðum. Fyrir byrjendur eru 4-rása FM fjarstýringar nægilega góðar. Fjarstýringin þarf að vinna á 35MHz tíðnisviðinu, sem er frátekið fyrir flugmódel. Ekki má nota þannig fjarstýringu fyrir báta eða bíla. Sumir hafa fallið í þá freistingu að kaupa fjarstýringu erlendis og ætla að spara nokkrar krónur, en sjá svo eftir því þar sem erfitt er að fá varahluti og aukahluti í þannig tæki hér á landi. Þær fjarstýringar sem eru seldar hér á landi hafa verið prófaðar af Fjarskiptaeftirliti ríkisins, og eru því af hæsta gæðaflokki. Mikilvægt er að bæði sendirinn og móttakarinn séu með hleðslurafhlöðum og að hleðslutæki fylgi tækjunum. Varist að nota rafhlöðuhylki með lausum rafhlöðum, því þannig frágangur þolir illa titring frá mótor.
Hvað kostar að byrja?
Stofnkostnaður er kanski nokkuð mikill, en hafa verður í huga að t.d. mótor og fjarstýringu geta menn átt árum saman. Sjálfsagt er að dreifa kostnaðinum eftir því sem smíðinni miðar áfram. Byrja má á því að kaupa módel og setja það saman. Nokkrum mánuðum síðar þarf að kaupa filmu og smáhluti. Nokkru síðar mótor og síðast fjarstýringu. Kostnaðinum má þannig dreifa á t.d. hálft ár. Hér á eftir eru nokkur dæmigerð verð:
Er erfitt að fljúga módeli?
Það er mun erfiðara en maður gæti haldið! Allmargir módelflugmenn hafa lært að fljúga alvöru flugvélum, og þeim kemur saman um að um fjórum sinnum erfiðara sé að stýra flugvél utan frá en innan frá. Hvers vegna? Jú, stýrin eru sífellt að breyta um hegðun þegar módeli er flogið. Þannig verður hægri að vinstri og öfugt þegar snúið er við og flogið til baka. Öllu snúnara verður það þegar flogið er á hvolfi; þá víxlast upp og niður, stundum hægri og vinstri, en ekki á sama hátt hjá hallastýri og hliðarstýri. Reikna má með að það taki allt að 10 flug með kennara að ná nokkrum tökum á byrjendamódeli, og er þá hvert flug um 15 mínútur. Næstu flug ganga síðan væntanlega hálf brösótt, sérstaklega lendingar. Námi er þó ekki lokið þá, og eru menn ekki orðnir sæmilega færir fyrr en eftir um 50 flug. Oft koma fyrir óhöpp, sérstaklega í byrjun, og verða menn að taka því með jafnaðargeði. Vel notað byrjendamódel verður fyrir miklu hnjsaski og er oft orðið marglímt og bætt áður en það hefur náð að skila hlutverki sínu. Menn verða ekki góðir í módelflugi fyrr en eftir nokkurra ára þjálfun.
Þyrlur
Mun erfiðara er að fljúga módelþyrlu en venjulegu vængjuðu módeli. Þyrlan er dýrari og varahlutir kosta stórfé. Það er því ráðlegt að læra fyrst á venjulegt módel.
Hvar eru módelflugvellir?
1) Hamranesflugvöllur: Þetta er stærsti módelflugvöllur landsins, og með þeim glæsilegri í heiminum. Núvirði framkvæmda á svæðinu er um 10 milljón krónur svo að greiða verður fyrir afnot. Leiðarvísir: Ekið er suður í gegn um Hafnarfjörð, og beygt til vinstri inn á Krísuvíkurveg, skömmu eftir að komið er út úr bænum. Eftir Krísuvíkurvegi er ekið um 2 km, (um 500 metrum lengra en háspennulínan og gula spennistöðin) uns komið er að malarvegi sem liggur til vinstri. Á skilti á vegamótunum stendur "Hamranesflugvöllur". Eftir þessum vegi er ekið til norð- austurs um 1 km, þar til komið er að flugvellinum.
2) Pálsvöllur: Þetta er grasvöllur skammt frá Sandskeiði. Hann hefur aðallega verið notaður fyrir svifflug. Þar er öllum félögum í Þyt frjálst að vera án gjalds. Leiðarvísir: Ekið er í átt til Sandskeiðs og inn á Bláfjallaveg. Á móts við hliðið inn á Sandskeið er beygt af Bláfjallavegi til hægri og ekið eftir vegarslóða um 1 km. (ónákvæmt). Vegurinn liggur fyrst hornrétt á Bláfjallaveginn, en sveigir síðan í átt að skíðasvæðinu. Um það bil miðja vegu er komið að stórum hraunkletti og er haldið áfram eftir veginum um 500 m. þar til komið er að flugvellinum.
3) Keflavíkurflugvöllur: Þetta er hinn eini og sanni Keflavíkurflugvöllur! (Stóri flugvöllurinn er ekki í Keflavík, heldur á Miðnesheiði). Þarna hafa módelflugmenn á Suðurnesjum gert góðan módelflugvöll. Leiðarvísir: Ekið er í gegn um Keflavík í átt til Sandgerðis. Skömmu eftir að komið er út úr byggðinni (1000 m.) sést völlurinn hægra megin vegarins.
4) Melgerðismelar Akureyri: Þessi völlur er fyrir vélflug, svifflug og módelflug. Svæðið er rekið meðal annars af Flugmódelfélagi Akureyrar. Hafið samband við þá ef ykkur langar til að prófa völlinn. Þetta var á sínum tíma aðalflugvöllur Norðurlands. Leiðarvísir: Ekið um 20 km til suðurs frá Akureyri inn í fjörðinn. Þegar komið er að Edduhótelinu (Hótel Vin) að Hrafnagili er leiðin um það bil hálfnuð. Sjá nánar á vegakorti, þar sem vegurinn greinist nokkuð á leiðinni. Völlurinn er á vinstri hönd og fer varla fram hjá mönnum, því þar er m.a. stórt flugskýli.
Hvaða flugmódelfélög eru á Íslandi?
Flugmódelfélagið Þytur er stærsta félagið og eru í því félagar meira og minna frá öllu landinu. Á Akureyri er Flugmódelklúbbur Akureyrar, og á Suðurnesjum er Flugmódelklúbbur Suðurnesja.
Á Akranesi eru allmargir módelflugmenn. Þytur hefur heimilisfangið: Pósthólf 5219, 125 Reykjavík. Upplýsingasími er 562-29-10. Á félagaskrá Þyts eru um 150 manns á aldrinum 10 ára til sextugs. Virkir félagar eru þó nokkuð færri.
Hvað kostar að vera í flugmódelfélagi?
Félagsgjald í Þyt er krónur 5.000,-. Vilji menn nota aðstöðuna á Hamranesi fyrir sunnan Hafnarfjörð kostar það 7.000,- til viðbótar. Þeir sem eru 16 ára og yngri greiða aðeins 60% gjalds.
Hve langt dregur fjarstýringin?
Meira en 1000 metra í lofti ef hún er í lagi, en módelið sést ekki vel ef það er lengra í burtu en 300 til 500 metra.
Hve hratt flýgur módelið?
Byrjendamódel allt að 70 km/klst, listflugvél 100 til 150 km/klst, hraðfleyg listflugvél allt að 200 km/klst, þota allt að 350 km/klst.
Hvað gerist ef mótorinn drepur á sér?
Yfirleitt er mjög auðvelt að láta módelið svífa örugglega til jarðar eins og svifflugu.
Þarf leyfi til að fljúga flugmódeli?
Nei.
Þarf að kaupa tryggingar?
Félagar í Þyt eru sjálfkrafa aðilar að hóptryggingu, sem tryggir þá ef þeir verða bótaskyldir vegna tjóns sem þeir valda. Hámarksbætur eru í dag sambærilegar við ábyrgðartryggingu bifreiða. Enginn ætti að fljúga ótryggður, því hann gæti orðið öreigi ef hann veldur slysi; dæmi eru um það erlendis.
Get ég kennt mér sjálfur að fljúga?
Nei. Þó er það rétt hugsanlegt ef menn byrja með mjög auðvelda svifflugu. Útilokað er að fljúga vélflugu hjálparlaust í byrjun.
Þarf ég kennara og hvar fæ ég hann?
Þetta var góð spurning, og því erfitt að svara henni svo vel sé! Þetta hefur þó aldrei reynst vera vandamál, því módelflugmenn eru mjög hjálpsamir. Best er að fara út á flugvöll nokkrum sinnum og fylgjast með mönnum. Fljótlega kynnast menn félögum og sjá hverjir eru sæmilegir flugmenn. Sjálfsagt er að skýra frá því að maður sé að smíða módel og vilji fá einhvern til að prufufljúga því. Þegar komið er með módelið út á völl þarf vanur maður að yfirfara það mjög vandlega. Hann þarf meðal annars að athuga hvort límingar séu traustar, jafnvægispunktur á réttum stað (mikilvægt) og hvort stýrifletir hreyfist rétt. Vel getur farið svo að þú þurfir að fara með módelið aftur heim og lagfæra eitthvað, því reynslan hefur kennt okkur að ef eitthvað er ekki í fullkomnu lagi, þá er voðinn vís. Eftir að mótor hefur verið tilkeyrður er síðan hægt að prufufljúga módelinu, og þú færð vafalítið að prófa smá stund! Framhaldið kemur síðan af sjálfu sér, en mikilvægt er að fá mann með töluverða reynslu til að hjálpa þér af stað. Þannig menn fljúga mikið og eru því oft úti á flugvelli.
Flughermar.
Á síðustu árum hafa komið fram flughermar sem líkja eftir flugi módela. Einn slíkur er frá Dave Brown, og hefur hann verið prófaður hér á landi og reynst vel. Ef menn æfa sig vel með slíkum flughermi fyrir fyrsta flug, er líklegt að flugnámið gangi mun betur, og líkur á óhöppum í byrjun verða minni.
- Gangi þér vel!
Vonandi hafðir þú gagn af þessum upplýsingum!
2.12. 95 áhb