“Myrkurstundum á vökutíma fjölgar um 131 til 190 klukkustundir eða 5 til 8 sólarhringa ef klukkunni verður seinkað”…

Dr. Þorsteinn Sæmundsson stjörnufræðingur hefur séð um útgáfu Almanaks Háskólans í áratugi og reiknað út hinar margbreytilegu töflur sem þar eru, en það er mikil nákvæmnisvinna. Hann er því manna fróðastur um tímatal og klukkuna. Þorsteinn var um áratugaskeið deildarstjóri Háloftadeildar Raunvísindastofnunar Háskóla Íslands.

Þorsteinn hefur oft fjallað um klukkuna, seinkun hennar, sumartíma, vetrartíma, o.fl. Mig langar til að vísa á pistil hans á vef Almanaksins: „Um seinkun klukkunnar“    http://www.almanak.hi.is/seinkun2.html

Það vill svo til að sá sem þessar línur ritar starfaði á Háloftadeild Raunvísindastofnunar, þar sem Þorsteinn réði ríkjum, sem sumarmaður árin 1968 og 1969. Þá var einmitt ákveðið að  hafa sumartíma allt árið á Íslandi og urðu margir fegnir þegar hringlinu með klukkuna var hætt.

 

Þorsteinn sagði í viðtali við Morgunblaðið 1. desember 2014:

 

Still­ing klukk­unn­ar alltaf mála­miðlun

Ingi­leif Friðriks­dótt­ir
if@mbl.is

Dr. Þorsteinn Sæmundsson, stjörnufræðingur hjá Raunvísindastofnun Háskóla Íslands.stækkaDr. Þor­steinn Sæ­munds­son, stjörnu­fræðing­ur hjá
Raun­vís­inda­stofn­un Há­skóla Íslands. mbl.is/​Golli

„Ég hef mikl­ar efa­semd­ir um nei­kvæð heilsu­fars­leg áhrif af fljótri klukku. Í því sam­bandi er at­hygl­is­vert að svefn­höfgi ung­linga virðist engu minna vanda­mál í þeim lönd­um þar sem klukk­unni er seinkað að vetri til,“ seg­ir Þor­steinn Sæ­munds­son, stjörnu­fræðing­ur.

Hann seg­ir það klukk­una frem­ur en dags­birt­una sem ræður því hvenær ung­ling­ar fara að sofa á kvöld­in. Sums staðar er­lend­is hafi það gef­ist vel að hefja skóla­hald seinna að morgni, og slíkt hafi t.a.m. tíðkast í Eg­ilsstaðaskóla síðustu ár.

Mbl.is fjallaði í síðustu viku um fyr­ir­lest­ur Bjarg­ar Þor­leifs­dótt­ur, lektors við Lækna­deild Há­skóla Íslands, um klukkuþreytu á meðal Íslend­inga. Þar sagði hún það mjög brýnt lýðheilsu­mál að seinka klukk­unni um eina klukku­stund. Íslend­ing­ar væru að skapa sér vanda með nú­ver­andi fyr­ir­komu­lagi sem hef­ur meðal ann­ars slæm­ar af­leiðin­f­ar fyr­ir heilsu fólks.

„Ég hef litla trú á því að þetta sé heilsu­fræðilegt heimsvanda­mál,“ seg­ir Þor­steinn í sam­tali við mbl.is. Hann seg­ist jafn­framt hafa þá at­huga­semd að Björg, ásamt mörg­um öðrum, ein­blíni á eina af­leiðingu þess að seinka klukk­unni í stað þess að skoða málið frá öll­um hliðum.

Hverri til­hög­un fylgja kost­ir og ókost­ir

„Still­ing klukk­unn­ar verður alltaf mála­miðlun því að sér­hverri til­hög­un fylgja bæði kost­ir og ókost­ir,“ seg­ir Þor­steinn, en bend­ir á að þegar nú­gild­andi lög um tíma­reikn­ing voru sett árið 1968 hafi megin­á­stæðan verið óánægja fólks með það sem kallað var hringlið með klukk­una.

Í pistli sín­um um seink­un klukk­unn­ar seg­ir hann mark­miðið með laga­setn­ing­unni það ár hafa fyrst og fremst verið það að koma á föst­um tíma allt árið. „Skoðana­könn­un leiddi í ljós að mun fleiri vildu hafa flýtta klukku („sum­ar­tíma“) en óbreytta („vetr­ar­tíma“). Varð því niðurstaðan sú að klukk­ur skyldu stillt­ar eft­ir miðtíma Greenwich.“

Radd­ir komið fram síðustu ár sem kalla á breyt­ingu

Eft­ir breyt­ing­una má segja að friður hafi ríkt um tíma­reikn­ing­inn í ald­ar­fjórðung. Það er ekki fyrr en á síðustu árum að komið hafa fram radd­ir sem kalla á breyt­ingu á ný. Má þar nefna þings­álykt­un­ar­til­lögu árið 1994, frum­varp árið 1995 (end­ur­flutt 1998 og 2000), og þings­álykt­un­ar­til­lög­ur árin 2006, 2010, 2013 og nú síðast árið 2014.

„Spyrja má hvers vegna breyt­inga sé óskað eft­ir svo langa sátt um nú­gild­andi fyr­ir­komu­lag. Þar kem­ur tvennt til greina. Í fyrsta lagi er vax­in upp ný kyn­slóð sem man ekki það fyr­ir­komu­lag sem áður gilti og þekk­ir ekki af eig­in raun kosti þess eða ókosti. Í öðru lagi hafa skap­ast ný viðhorf vegna breyttra aðstæðna í þjóðfé­lag­inu, nýrr­ar tækni og nýrra sjón­ar­miða. Hvort tveggja þarf að hafa í huga áður en ákvörðun er tek­in um laga­setn­ingu sem óhjá­kvæmi­lega snert­ir hvern ein­asta Íslend­ing að meira eða minna leyti.“

Bjart­ari morgn­ar dýr­keypt­ir

Þá bend­ir hann á að seink­un klukk­unn­ar hefði þau áhrif að bjart­ara yrði á morgn­anna og það sé tví­mæla­laust sterk­asta rök­semd þeirra sem vilja fara þessa leið.

„Á hinn bóg­inn eru bjart­ari morgn­ar keypt­ir því verði að fyrr dimm­ir síðdeg­is þegar um­ferð er meiri og börn á leið úr skóla. Menn get­ur greint á um það hvort þeir kjósi frem­ur bjart­ari morgna eða bjart­ara síðdegi. En um­ferðarþung­inn bend­ir til þess að menn nýti al­mennt síðdegið frem­ur en morgn­ana til að sinna er­ind­um sín­um. Það virðist gilda að sumri ekki síður en vetri og stjórn­ast því ekki af birt­unni einni sam­an. Óum­deilt er, að flest­ir kjósa flýtta klukku á sumr­in, því að lengri tími gefst þá til úti­vist­ar.“

Fals­von­ir um batn­andi líðan við að seinka klukk­unni

Þor­steinn bend­ir jafn­framt á að í þings­álykt­un­ar­til­lög­unni sé horft fram­hjá þeirri staðreynd að raf­lýs­ing hef­ur áhrif á lík­ams­klukk­una ekki síður en sól­ar­ljósið og rask­ar því hinni nátt­úru­legu sveiflu. „Í þjóðfé­lagi nú­tím­ans ræður sól­ar­ljósið ekki still­ingu lík­ams­klukk­unn­ar nema að tak­mörkuðu leyti. Því ætti ekki að vekja mönn­um fals­von­ir um að líðan þeirra muni batna til muna við það að seinka klukk­unni.“

Þá seg­ist hann hrædd­ur um að mörg­um myndi bregða í brún þegar þeir yrðu var­ir við það að myrkrið skylli á klukku­stund fyrr síðdeg­is, eins og myndi ger­ast ef klukk­unni væri seinkað. „Dótt­ir mín bjó í Lundi í Svíþjóð í haust þegar klukk­unni var breytt þar frá sum­ar­tíma yfir á vetr­ar­tíma. Hún orðaði það svo að breyt­ing­in síðdeg­is hefði verið afar óþægi­leg. Ég hef heyrt svipaða sögu frá fleir­um, bæði aust­an­hafs og vest­an­hafs,“ seg­ir Þor­steinn.

Loks seg­ir hann rétt að vekja at­hygli á því að mik­ill fjöldi fólks í heim­in­um býr við fljóta klukku allt árið. Þetta sjá­ist vel ef tíma­kort Almanaks Há­skól­ans er skoðað.

 

— — —

 

Dr. Gunnlaugur Björnsson stjarneðlisfræðingur, núverandi deildarstjóri Háloftadeildar Raunvísindastofnunar Háskóla Íslands, skrifaði 1. desember 2014 á visir.is:

Myrkur í heygarðshorninu

SKOÐUN

09:18 01. DESEMBER 2014

Gullli

Enn er komin fram á Alþingi þingsályktunartillaga um „seinkun klukkunnar og bjartari morgna“. Réttilega er bent á í tillögunni að klukkan á Íslandi er ekki í samræmi við gang sólar. Það er enda svo að tíminn er ákveðinn hinn sami á öllu landinu þó að með réttu lagi ætti klukkan á Austurlandi að vera um hálftíma á undan klukkunni á Vesturlandi.

Þegar tíminn er festur eins og gert er á Íslandi og raunar í öllum löndum, er reynt að koma því þannig fyrir að gangur klukkunnar sé sem flestum að skapi. Það er ekki alltaf auðvelt, og í sumum ríkjum er það reyndar alls ekki gert. Þegar ákveðið var árið 1968 að sumartími skyldi gilda á Íslandi árið um kring var það að sjálfsögðu að vel athuguðu máli og hefur ekki þótt ástæða til að hreyfa við því síðan.

Á liðnum áratug eða tveimur, hafa öðru hvoru komið fram á Alþingi tillögur um að hverfa frá þessu fyrirkomulagi. Fyrst vildu menn auka enn við misræmið og færa hádegið lengra fram á eftirmiðdaginn. Gæfust þannig lengri og bjartari kvöld til útiveru, grillunar eða annarrar iðju. Það varð ekki. Nú vilja sumir þingmenn taka skrefið í hina áttina og hverfa frá föstum sumartíma. Meginástæða þessara hugmynda að breyttri klukku sýnist vera sú að með því móti fáist bjartari morgnar, sem vissulega er rétt. Það virðist þó skína í gegn í tillögunni að þetta gefi fleiri birtustundir í sólarhringnum en núverandi fyrirkomulag og bæti þar með geð guma. Það er auðvitað alrangt. Lega landsins og gangur jarðar um sól „úthluta“ okkur ákveðnum fjölda birtustunda yfir daginn, við getum einungis ákveðið með lögum hvernig klukkan skuli stillt. Það fjölgar ekki birtustundum.

Líklega skiptir það þorra manna mestu máli að birtustundir á vökutíma séu sem flestar. Það er einfalt að reikna það út að ef klukkunni yrði seinkað um eina klukkustund eins og þingsályktunartillagan leggur til, myndi myrkurstundum á vökutíma fjölga um 131 til 190 klukkustundir eftir því hvort vökutími teldist frá 7-23 eða 8-24.

Þetta samsvarar fimm til átta heilum sólarhringum í auknu myrkri á vökutíma! Ég myndi ekki vilja skipta fyrir nokkurn mun. Ekki verður séð að hugmynd flutningsmanna sé líkleg til að draga úr skammdegisþunglyndi eða öðrum sálarkvillum sem hugsanlega orsakast af langri dvöl á norðurhjara.

Geta vísindin klukkað samfélagið?

Tryggvi Helgason barnalæknir‚ Heilsuskóla Barnaspítalans og Domus Medica skrifar góða ritstjórnargrein í Læknablaðið 2019.

“…Með fækkun bjartra stunda að afloknum skóla- og vinnudegi má til dæmis telja líklegt að hreyfing ungmenna minnki. Hún er nú þegar í harðri samkeppni við aðra afþreyingu en engin áhersla var á þetta atriði í skýrslunni og ekki heldur í umfjöllun fjölmiðla. Þó eru til rannsóknir sem benda til slíkra áhrifa. Má nefna samantektarrannsókn úr stórum gagnagrunni hreyfimæla í 9 löndum þar sem niðurstaðan er að aukin dagsbirta í formi sumartíma sé líkleg til að auka hreyfingu ungmenna1 og nýlega innlenda rannsókn, sem skýrsluhöfundar áðurnefnds starfshóps vitnuðu til varðandi svefninn, þar sem tengsl fundust milli dagsbirtu og hreyfingar unglinga hér á landi, sérstaklega stúlkna. …”

“…Samfélög og breytingar á þeim geta valdið vanda og bætt úr vanda er varða lýðheilsu íbúanna. Mitt sérsvið, offita barna, er eitt skýrasta dæmið um það. Breytt samfélagsmynstur víða í hinum vestræna heimi hefur margfaldað offitu í öllum aldurshópum með þekktum afleiðingum fyrir heilsuna. …”

 

Að lokum.

Þetta er skoðun tveggja manna sem best þekkja útreikning tímatals og klukkunnar á Íslandi, svo og læknis er skilur vel nauðsyn á útiveru og hreyfingu.

Á mínum vinnustað mætir starfsfólkið til vinnu á tímabilinu 7 til 9. Þeir árrisulu mæta snemma og geta því einnig farið snemma heim í lok vinnudags. Flestir mæta um klukkan átta, en allnokkrir ekki fyrr en um níuleytið.  Allir eru ánægðir og klukkan ekkert vandamál.

Svo má auðvitað minnast á að í þéttbýli utanhúss er tæplega hægt að tala um skammdegismyrkur, lýsing er það góð. Myrkrið er aftur á móti í dreifbýlinu. Þar er það oft kolsvart.  Innanhúss er auðvitað vel bjart hjá okkur öllum, þökk sé góðri raflýsingu.

Ráðið við morgunsyfju er einfalt:
Fara fyrr að sofa og gæta þess að ná 7 – 8 tíma svefni. Vakna síðan eldhress smile.

Það hlýtur að liggja í augum uppi hjá öllu meðalgreindu fólki, að það að stytta þann tíma sem fólk getur notið útiveru að kvöldi til, eftir vinnu eða skóla, hlýtur að koma niður á heilsu þess. Seinkun klukkunnar gæti því orsakað alvarlegt lýðheilsuvandamál.