Er það hrós að vera kallaður efasemdarmaður…?

Oft hefur sá er þessar línur ritar verið kallaður efasemdarmaður, fyrst og fremst vegna þess að hann efast um að aukning koltvísýring (CO2) hafi valdið allri hækkun hita andrúmsloftsins síðastliðin 150 ár, þ.e. frá síðustu áratugum Litlu ísaldarinnar svokölluðu. Sumir hafa jafnvel notað enn sterkari orð eins og afneitunarsinni. 

Fróðlegt er að skoða hvað liggur að baki slíkum fullyrðingum. Í þessum pistli eru nokkrar úrklippur úr bloggsíðum og greinum sem skrifaðar hafa verið allt frá árinu 1998 til dagsins í dag. Úrklippurnar eru nokkurn vegin í tímaröð og eru af þeim stöðum þar sem fjallað er um áhrif koltvísýrings og náttúru.

Í öllum þessum greinum og bloggpistlum eru áhrif koltvísýrings talin vera á bilinu “þriðjungur” til “helmingur”. Er þá átt við áhrif á hlýnun síðastliðin 150 ár.  Oft er tekið fram að þetta séu ekki nákvæmar tölur, aðeins nokkurn vegin með miklum óvissumörkum.

Mér hefur ætíð þótt rétt að útiloka ekki neinn þátt, t.d. CO2, því geri maður slíkt er hætt við að maður verði með fordóma hætti að hugsa.  Hvað hver þáttur vegur mikið má alltaf velta fyrir sér og skipta um skoðun þegar maður þykist vita eitthvað betur.

Bætt verður við úrklippum þegar fleiri pistlar finnast þar sem fjallað er um þessi mál. Af nógu er að taka, sjá hér.


Úrklippa úr vefsíðu frá árinu 1998:

Úrklippan er úr vefsíðunni Er jörðin að hitna – Ekki er allt sem sýnist. Vefsíðan var upphaflega skrifuð í febrúar 1998.  Vefsíðan skiptist í 9 kafla, og er skjáskotið tekið neðarlega á fyrstu síðunni.
Samantekið: CO2 42%, náttúran 42%, óvissa 16%



 

Úrklippa úr grein í Lesbók Morgunblaðsins frá árinu 1998:

Greinina  Gróðurhúsaáhrif eða eðlilegar sveiflur í virkni sólar? í Lesbók Morgunblaðsins 20. júní 1998 má finna á  Tímarit.is á blaðsíðum 10 – 12.  Sjá hér.  Sjá einnig hér.

Samantekið: CO2 50%, sólin 50%.




Úrklippa úr vefsíðu frá árinu 2003:

Þessi vefsíða kallast Öldur aldanna.  Sjaldan er ein báran stök – einnig í veðurfari? skrifuð árið 2003 og fjallar eingöngu um möguleg áhrif sólar.   “…Eins konar spennusaga sem fjallar ekki um gróðurhúsaáhrif”, stendur á úrklippunni.
Engin afstaða tekin tll þess hve mikil áhrif sólar eða CO2 eru.

 



Úrklippa úr vefsíðu frá árinu 2015:

Síðan er haldið áfram í samantektinni:

“…Hvað “þriðjungur” er nákvæmlega geta menn haft sína skoðun á, mér og mínum að meinalausu.

Við sjáum greinilega á hitaferlinum frá Bresku Veðurstofunni  að Litlu Ísöldinni lýkur ekki fyrr en um 1920, þá verður mjög hröð hlýnun fram að 1945, síðan kyrrstaða til um 1975 er hitinn fer að rísa hratt til ársins 2000, og að lokum meira og minna kyrrstaða til dagsins í dag.

Eftirtektarvert er að á tímabilinu 1920 til 1945 er álíka hröð og álíka mikil hækkun á hitastigi og á tímabilinu 1975 til 2000. Hvort tveggja 25 ára tímabil. Það er umhugsunarvert að losun manna á koltvísýringi var tiltölulega lítil fyrr en eftir miðja síðustu öld er losunin fór hratt vaxandi. Það flækir auðvitað málið dálítið.  Var það kannski náttúran sem var að verki á fyrra tímabilinu og mannfólkið á hinu síðara?  Eða á náttúran einhvern þá í hitabreytingunum yfir allt tímabilið? Það hefur hún alltaf gert.

Við tökum eftir því að meðalhitinn yfir allt tímabilið er nokkurn vegin sá sami og mældist í kyrrstöðunni 1945-1975. Væri ekki eðlilegra að miða hækkun lofthitans við það tímabil frekar en Litlu Ísöldina eins og gert er?  Þá væri hækkunin sem við værum með áhyggjur af um 0,5 gráður í stað 0,8 gráða, eða 1° ef við kjósum heldur að nota þá tölu.

Þriðjungur af 0,5 gráðum er tæplega 0,2 gráður, (0,17°). Ekki er það nú mikið. Getur verið að áhrif koltvísýrings hafi ekki verið meiri?   Hummm…    Ekki skal neitt fullyrt í þssum málum…”.

Hér er orðið nokkuð lítið úr “þriðjungnum”, orðinn aðeins að tæplega 0,2% 🙂

 

 

Úrklippan er úr vefsíðunni  Loftslagsbreytingar af völdum manna eða náttúru, eða kannski hvort tveggja? frá árinu 2015.
Samantekið: CO2 33%, sólin 33%, hafið 33%.



 

Grein í blaðinu Sámur fóstri apríl 2017:

Grein úr blaðinu Sámur fóstri, apríl 2017.
Hnattrænar veðurfarsbreytingar undanfarna áratugi – Leikur náttúrunnar eða athafnir manna?  Sjá hér. Skjáskotið er af niðurlagi greinarinnar.

Samantekið: CO2 33%, sólin 33%, hafið 33%.



Að lokum:

Í öllum þessum greinum og bloggpistlum eru áhrif koltvísýrings talin vera á bilinu þriðjungur til helmingur. Er þá átt við áhrif á hlýnun síðastliðin 150 ár.  Oft er tekið fram að þetta séu ekki nákvæmar tölur, aðeins nokkurn vegin.

Það virðist ekki vera nóg í hugum margra, sem telja að mestalla hlýnunina megi rekja til losunar manna á koltvísýringi, og telja svona viðhorf bera vott um efasedarmennsku, Að vera efasemdarmaður er nefnilega slæmt í hugum fjölmargra. Menn eiga ekki að leyfa sér að hugsa sjálfstætt.

“Er það hrós að vera kallaður efasemdarmaður” er spurt í fyrirsögninni.  Auðvitað er það mikið hrós.

En hið kjánalega orð afneitunarsinni sem ítrekað hefur verið notað um þann sem þessar línur ritar. Afneitar hverju?

Erlendis hafa sumir  vísindamenn notað orðið “lukewarmer” um sjálfa sig. Ég gæti kannski sagt um mig að ég sé volgur. Einhver netverji, sem útilokar allan þátt koltvísýrings, og sem ekki er sáttur við afstöðu mína kallar mig hálfvelgju. Það er bara flott og líka hrós.

Í smá hálfkæringi og stríðni í blálokin:

Auðvitað eru það bara kjánar sem nota orð eins og afneitunarsinni. En ég mátti til með að prófa. Afsakið kjánaskapinn 🙂

 

Nú er ekki úr vegi að vitna í Konungs Skuggsjá.   Þar er mjög skynsamleg skrif að finna:

“…En annar hlutur er forvitni, því að það er mannsins náttúra
að forvitna og sjá þá hluti, er honum eru sagðir, og vita, hvort svo er, sem
honum var sagt, eða eigi”.