Nú er hann Már vinur minn allur. Hann lést 3ja maí s.l.
Mása hef ég þekkt í sex áratugi og hálfan betur. Kannski rúmlega sjö, því Mási var tveim dögum eldri en ég og hafði hann það eitt sinn á orði að hann hafi séð mig koma hágrenjandi í heiminn á fæðingadeildinni og hlegið mikið. „Þá sussaði ég á þig“ bætti Már við og glotti. Reyndar fæddist hann á Geysi 28. apríl 1945, svo þetta var pínulítið fært í stílinn.
–
Eiginlega get ég skipt kynnum mínum af Mása í tvo kafla. Kannski þrjá.
Á æskuárunum var ég iðulega í sumarbústað, einum af þrem kofum, þar sem nú er Haukadalsskógur. Þar lærði ég sundtökin í moldarsundlaug og kynntist íslenskri náttúru og mannfólki eins og það gerist best. Lærði að sitja hest, skjóta úr byssu og aka bíl strax þegar nefið náði upp yfir stýrið. Á túninu við kirkjuna stundaði Sigurður Greipsson heyskap með sínu fólki og þar voru börn hans að leik. Þar á meðal Mási. Ein af mínum fyrstu minningum þaðan var þegar ég sýndi Mása boga sem ég hafði smíðað úr bambus. Mási girntist gripinn og fékk túkall hjá einhverjum þeirra sem eldri voru og greiddi mér. Boginn skipti um eigendur og guttinn ég snéri hróðugur heim í kofann með túkallinn. „Hvernig gastu eiginlega gert þetta?“ var ég spurður. Síðan var ég sendur með túkallinn til Mása þar sem hann var að æfa sig í bogfimi á túninu. Mási hélt túkallinum og boganum, en atburðurinn greyptist í minninguna. Ég skammaðist mín dálítið. Þessi kynni okkar Mása rifjuðum við stundum upp og hafði Mási gaman af. Hann hafði snemma vit á viðskiptum.
Á unglingsárunum starfaði ég um stund við skógrækt, meðal annars við grisjun og trjáplöntun í Haukadal. Mása hitti ég þá af og til, en Greipur bróðir hans starfaði með okkur sem verkstjóri. Þá voru menn uppteknir við vinnu langt fram á kvöld og lítill tími fyrir annað.
Líður svo tíminn. Mása hitti ég annað slagið, og eitt sinn er við vorum að nálgast miðjan aldur vildi hann ólmur selja mér landskika. Einhver formlegheit komu þó í veg fyrir að úr því yrði, en eitt sinn sem oftar þegar við áðum á Geysi sá Mási okkur hjónin þar sem við vorum að bíða eftir kaffi og meðlæti. Þetta var rétt fyrir aldamótin. “Komdu snöggvast Gústi” kallaði Mási og ég fylgdi honum út á hlað. Upp í bílinn skipaði Mási og þýddi ekkert að malda í móinn. Mási brunaði síðan að Tungufljóti, niður með flugbrautinni, felldi niður girðingu og ók óhikað yfir óslétt og þýfið land. Hvernig hann komst áfram án þess að festa bílinn er mér eiginlega óskiljanlegt enn. „Hvernig líst þér á? Er þetta ekki glæsilegt? Þetta áttu að kaupa“. Víst var landið fallegt, en gróður var lítið annar en berjalyng. Ekkert skipulag lá fyrir. Ég féll þó strax fyrir því. “Gæti ég fengið tvo hektara”, spurði ég af hógværð. Jamm, en ekki meðfram ánni. Við snérum svo aftur sömu leið upp í hótel þar sem frúin beið með tvo kalda kaffibolla og áhyggjufullur þjónninn skildi ekkert í því hvað hafði gerst. Ég hafði bara sísona gufað upp eða orðið uppnuminn. Alveg sporlaust. Næstu daga var hugsað stíft og mikið spáð. Ég smalaði saman fáeinum úr fjölskyldunni og tveim betur og við festum kaup á öllu þessu fallega óskipulagða landi. Nokkru síðar keyptum við nokkra viðbót af öðlingnum Bjarna Sigurðssyni harmonikkuleikara með meiru, bróður Más. Alls um 22 hektarar á bökkum Almenningsár sem deildust á 6 fjölskyldur. Kannski var þetta framhald af viðskiptunum með bogann? Þetta varð upphafið að miklu ævintýri. Már var nú orðinn nágranni minn og gagnkvæmt.
Nú þegar við Mási vorum orðnir nágrannar urðu samskiptin meiri. Fyrstu tvö árin fóru í að gera deilskipulag og fá það samþykkt, leggja vegi, girða, og annað stúss. Mási hafði komist yfir þrjú gömul hús við Laugarvatn sem átti að fara að henda. Hann fékk þau víst fyri lítið sem ekkert gegn því að fjarlægja þau. Úr varð að ég keypti eitt þeirra og sá Mási um flutning með hjálp Jóa á Brekku ásamt því að gera undirstöður með aðstoð Bjössa smiðs. Allt miklir öðlingar. Húsið var orðið nokkuð lúið, en að mestu ófúið. Bjössi aðstoðaði mig við að einangra húsið að neðan og endurnýja nokkrar fúaspýtur. Á meðan bjó hann frítt á Geysi í boði Mása. Síðar sama sumar kom rafmagn og vatn og ævintýrið var komið á fullt. Húsið skrapað og málað, pallur smíðaður og trjám plantað í þúsundavís.
Í nokkra áratugi hafði Már barist við vágestinn Parkinson. Parkinson hafði laumast að honum óvörum og náði smám saman meiri og meiri tökum á líkama hans. Már var á sínum yngri árum mikið hraustmenni, íþróttakennari og glímukappi. Hann glímdi því óhikað við Parkinson og hafði oftast betur. Honum tókst lengi vel að halda sjúkdómnum niðri með lyfjum og með raförvun í heila. Því miður elti óheppnin Mása og ítrekað lenti hann í slæmum bíl- og mótorhjólaslysum. Már lét þó aldrei deigan síga og vafalítið hefur hugurinn oft borið hann hálfa leið. Hann gafst þó aldrei upp. Það var ekki hans eðli.
Sumt af því sem við brölluðum er best geymt í minningunni, því lesandanum gæti ofboðið og hugsanlega farið úr límingunum, eða þannig. Það er jú harðbannað að prófa að setja sápu í hveri um miðja sumarnótt og ekki má aka eins og glanni á vel öðru hundraðinu. Það má ekki heldur… (usss, ekki meir…). Már kunni ekki að hræðast. Það er kannski pínulítið orðum aukið, en þannig var Mási. Hann var einnig bæði stríðinn og húmoristi. Oft hvort tveggja í senn. Hann hafði stundum gaman af því að atast í fólki og slapp ég ekki frekar en aðrir. Stundum vissi ég ekki hvort hann væri að tala við mig í fullri alvöru, eða bara að gantast. Það var alltaf stutt í stráksskapinn og prakkarastrikin… Ég þykist vita að Mási fyrirgefi ótuktarskapinn í mér að ljóstra þessu upp og hafi bara gaman af. Eitt er víst, það dugir ekki að skrifa einhverja lognmollu í eftirmælum um sveitarhöfðingjann og hetjuna Má Sigurðsson. Það væri ekki hans stíll.
Við Sigrún kveðjum Mása vin okkar, og vottum eiginkonu hans Sigríði, og börnum þeirra Mábil, Sigurði og Vihjálmi ásamt fjölskyldum og vinum samúð okkar. Einnig þeim fjölmörgu sem þekktu Má Sigurðsson. Minningin um Mása mun lifa í hjörtum okkar.
Ítarefni:
Viðtal við Má Sigurðsson í málgagni SAF, Samtaka ferðsþjónustunnar: Stórhugar
Morgunblaðið 2003: Hlustað á Geysi
Már Sigurðsson fæddist á Geysi 28. apríl 1945. Hann lést á heimili sínu 3. maí 2017.
Foreldrar Más voru Sigrún Bjarnadóttir frá Bóli í Biskupstungum, f. 7. nóvember 1903, d. 10. ágúst 1979, og Sigurður Greipsson frá Haukadal í Biskupstungum, f. 22. ágúst 1897, d. 19. júlí 1985.
Systkini Más eru: Bjarni, f. 1933, d. 1936, Bjarni, f. 1935, Katrín, f. 1937, d. 1938, Greipur, f. 1938, d. 1990, Þórir, f. 1939.
Eiginkona Más er Sigríður Vilhjálmsdóttir, f. 1. september 1951 í Sandgerði. Foreldrar hennar voru Gróa Axelsdóttir, f. 21. október 1924, d. 9. apríl 2004, og Vilhjálmur Ásmundsson, f. 20. maí 1926, d. 4. janúar 1960 frá Kverná, Grundarfirði.
Börn Más og Sigríðar eru:Mábil Gróa, f. 9. janúar 1970. Dætur hennar eru Sigríður Alma, f. 1996, og Salka Kristín, f. 2004. Stjúpbörn hennar eru Unnur, f. 1988, og Alex Baldvin, f. 1994.Vilhjálmur, f. 17. ágúst 1976. Sigurður, f. 13. mars 1976. Maki hans er Elín Svafa Thoroddsen, f. 14. janúar 1981.Dóttir Sigurðar og Drífu Bjarkar Linnet Kristjánsdóttur er Sara Jasmín, f. 2001.Dætur Sigurðar og Elínar eru Saga Natalía, f. 2011, Emelía Ísold, f. 2014, og Antonía Elín, f. 2015.
Már ólst upp á Geysi í Haukdal. Foreldrar hans ráku íþróttaskólann í Haukadal í 43 ár en ættfaðir Haukdæla, Teitur Ísleifsson, stofnaði fyrsta lærdómssetur Íslands. Faðir Más var íþróttafrömuður og glímukappi, stundaði sauðfjárbúskap á jörðinni, nýtti skólahúsið fyrir ferðaþjónustu á sumrin, stundaði ferðamannaleiðsögn og byggði upp aðstöðu á hverasvæðinu. Már útskrifaðist 1964 frá Íþróttaskóla Íslands á Laugavatni og sótti svo frekara nám í íþróttafræðum við danska háskólann Danmarks Højskole for Legemsøvelser og útskrifaðist þaðan 1968. Frá útskrift starfaði hann sem íþróttakennari á Hólum í Hjaltadal, Stykkishólmi, Fáskrúðsfirði, Reykjanesi við Ísafjarðardjúp og farkennari á vegum HSK. Árið 1969 hóf hann starf sem kennari við grunnskólann á Laugalandi í Holtum, Rangárvallasýslu, og starfaði þar í 25 ár. Már hóf uppbyggingu á ferðaþjónustu við Geysi í Haukadal árið 1972 og helgaði sig alfarið uppbyggingunni við fjölskyldufyrirtækið Hótel Geysi frá árinu 1993 og var mikill frumkvöðull á sviði ferðaþjónustu.
Már hlaut riddarakross Hinnar íslensku fálkaorðu árið 2005 fyrir frumkvæði í uppbyggingu ferðaþjónustu.
Stórhugar. Samtök ferðaþjónustunnar ræddu við Má Sigurðsson.
Andlitsmyndirnar tvær af Mása foru fengnar að láni af netinu án þess að biðja um leyfi.
Vona að það fyrirgefist.