Minningar frá sólmyrkvanum 1954 og sólmyrkvinn 2026…

 

30. júní árið 1954 var almyrkvi á sólu sem sást mjög vel syðst á Suðurlandi, og einna best nærri Dyrhólaey. Þar var almyrkvi, en aðeins deildarmyrkvi í Reykjavík.

Ég var svo lánsamur að fá að fara með frændfólki að Dyrhólaey og njóta atburðarins í einstaklega góðu veðri. Ég var þá 9 ára. Þar var kominn saman fjöldi fólks og þar á meðal fjölmargir útlendingar, því þetta var einn besti staðurinn til að njóta fyrirbærisins.

Við lögðum af stað frá Reykjavík eldsnemma morguns, því drjúgur spölur var til Dyrhólaeyjar og vegurinn auðvitað venjulegur lúinn malarvegur með þvottabrettum. Búist var við almyrkva um hádegisbil svo eins gott var að vera snemma á ferðinni. Ferðin austur gekk vel og vorum við mætt vel tímanlega. Eins og oft var allnokkuð brim við ströndina og upplagt að bregða á leik í fjöruborðinu meðan beðið var almyrkvans. Strákurinn naut þess vel.

Skyndilega mátti sjá smá sneið á jaðar sólar þegar máninn byrjaði að mjaka sér fram fyrir hana. Margir voru með rafsuðugler eða svarta filmu til að deyfa skært sólarljósið og nokkrir með sótaða glerplötu, en vafalítið hafa margir fengið meiri birtu í augun en hollt getur talist.

Smám saman stækkaði skugginn af tunglinu og bráðlega hafði hann næstum hulið alla sólina. Nú dimmdi óðum og fuglarnir í bjarginu þögnuðu. Þessi nótt sem nú skall á um hásumarið kom þeim greinilega á óvart. Spennan jókst og allir störðu þögulir til himins.  Nokkru síðar huldi máninn nákvæmlega alla sólina og sást einungis bjartur hringur á himninum. Almyrkvi á sólu. Undrunarhljóð hljómuðu. Almyrkvinn varði ekki lengi. Skyndilega sást ofurskært tindrandi ljós við jaðar tunglsins. Þetta var sólin að gægjast fram. Máninn og sólin mynduðu nú hinn fræga demantshring sem aðeins sést við almyrkva. Enn meiri undrunarhljóð…  (Myndin efst er af svona demantshring).

Smám saman sást meira af sólinni og fuglarnir tóku gleði sína aftur þegar birti. Mannfjöldinn leyndi ekki gleði sinni. Þetta yrði ógleymanlegt.

Vafalítið hefur þessi upplifun haft þau áhrif á guttann litla að hann fékk áhuga á himingeimnum, áhuga sem enn er fyrir hendi. Hann hafði orðið vitni að mögnuðum atburði sem allt of fáir fá tækifæri til að upplifa.

 

Daginn eftir birtist skemmtileg frásögn í Morgunblaðinu:

“Þeir, sem sáu sólina almyrkvast í gær voru vitni af einu stórkostlegasta náttúrufyrirbæri, sem augum getur að líta. Um hádaginn féll myrkur yfir landið, napur gjóstur næddi um menn og skepnur, og stjörnur skinu á himni eins og á vetrarnóttu. Þar sem fréttamenn Mbl. voru staddir á Skógasandi undir Eyjafjöllum, stóð hinn algeri sólmyrkvi í rúmlega eina mínútu. Að þeim tíma loknum kom örlítil rönd af sólinni fram undan tunglinu og innan skamms skein hún glatt í heiði. Heimurinn varð á ný bjartur og hlýr, þar sem fyrir örskammri stundu hafði ríkt hrollvekjandi myrkur og kuldi . . . .”

 

(Læsilegra sem PDF skjöl:   Forsíða    Framhald á síðu 2 )

 

Læsilegra sem PDF skjöl:

Forsíða
Framhald á síðu 2

 


Almyrkvi sem sést frá Íslandi 2026:

Sólmyrkvinn 12. ágúst 2026 verður almyrkvi á sólu sem gengur yfir Norðurslóðir, austanvert Grænland, Ísland,  Atlantshaf og Spán.

Almyrkvi verður þegar tunglið gengur á milli jarðarinnar og sólar þannig að það hylur algerlega sólina frá jörðu séð. Myrkvinn verður í hámarki yfir hafinu skammt vestan Látrabjargs kl. 17:45.53.

Almyrkvinn verður sá fyrsti sem sést frá Íslandi síðan almyrkvi gekk yfir meðfram suðurströndinn 30. júní 1954 en næsti almyrkvi sem gengur yfir Ísland verður ekki fyrr en árið 2196.

Takið eftir örlitla svarta deplinum sem færist yfir Ísland. Aðeins þar verður almyrkvi.

Meira á Wikipedia hér.

 



 

Ég á ekki neina ljósmynd frá sólmyrkvanum 1954, en nokkrar sem ég hef tekið af öðrum deildarmyrkvum:

Sólmyrkvinn 1999

 Myndina tók ég af deildarmyrkvanum 1999. Myndin er tekin í gegn um rafsuðugler.

 

Deildarmyrkvi á sólu. Myndin tekin 1. ágúst 2008 nærri Gullfossi.
Meira hér: Sólmyrkvinn 2008

 

Sólmyrkvi? Tja, þetta er reyndar Venus sem skyggir á hluta sólarinnar.
Myndin er tekin 11. júní 2004 klukkan 07:45.
Meira hér: Þverganga Venusar

 

No photo description available.

Þverganga Venusar 5. júní 2012.

Ekki beinlínis sólmyrkvi 🙂

 

 Jörðin, sólin bak við tunglið og vetrarbrautin.



 

Skyldar vefsíður:

Geimskot Frakka á Íslandi 1964 og 1965 . . .
http://www.agust.net/wordpress/stjornur/geimskot-frakka-a-islandi/

 

 

Horft til himins

Athuganir á brautum gervihnatta yfir Íslandi fyrir 60 árum…
http://www.agust.net/wordpress/2018/01/15/athuganir-a-brautum-gervihnatta-yfir-islandi-fyrir-halfri-old-og-njosnarinn-i-nordurmyrinni/

 

 

Observing Satellite Orbits Over Iceland 60 Years Ago…
http://www.agust.net/wordpress/2018/01/15/observing-satellite-orbits-over-iceland-a-half-century-ago/

 

 

Norðurljósa- og radióútbreiðsluspá
http://www.agust.net/wordpress/2022/06/05/nordurljosa-og-radioutbreidsluspa/