Spurt er: Hve mikilli viðbót við heimshlýnun næstu 100 ára veldur öll losun Íslendinga á CO2…?
Það er að segja ef við til einföldunar gefum okkur að öll hlýnunin s.l. 100 ár stafi af losun manna á CO2 og áhrif náttúrulegra sveiflna séu engin.
Árleg losun jarðarbúa á CO2 stefndi í það að vera 43 Gígatonn árið 2019 (landbúnaður meðtalinn). Við skulum afrúnna það í 50 Gígatonn. Til einföldunar notum við afrúnnaðar tölur við útreikningana.
Árleg losun Íslendinga á CO2 samkvæmt Umhverfisstofnun.er um það bil 5000 kílótonn eða 5 megatonn, sem jafngildir 0,005 Gígatonnum.
Gefum okkur að þessi aukning CO2 á heimsvísu, ef hún heldur áfram með sama hraða, valdi 1°C hlýnun á öld, eða 0,01°C á ári.
Hugsum okkur að við gætum á næstunni komið í veg fyrir alla losun okkar Íslendinga á koltvísýringi. Ekkert undanskilið. Auðvitað ekki raunhæft, en við hugsum okkur það samt. Hvaða áhrif hefði það á hitastig lofthjúps jarðar?
0,005 Gígatonn / 50 Gígatonn = 0,0001. ( Losun Íslendinga / Losun allra jarðarbúa )
Ef hækkun lofthita vegna gróðurhúsaáhrifa hefur verið 1°C á síðustu 100 árum, og ef hlýnun heldur áfram með sama hraða, þá yrði viðbótarhlýnunin á heimsvísu sem við Frónverjar gætum komið í veg fyrir með því að skella öllu í lás í eina öld aðeins verið um 0,0001°C.
Það er 1/10.000 úr gráðu eða 0,1 milligráða Celsius, samtals á 100 árum.
1/10.000 úr gráðu á heilli öld er það sem við gætum minnkað heimshlýnun um ef við hættum allri losun á koltvísýringi, flyttum burt og lokuðum landinu…
Á hverju ári jafngildir það minnkun á heimshlýnun um 1/1.000.000 gráðu, þ.e. 1 míkrógráðu !
Nú er það auðvitað ekki gerlegt að stöðva alla losun á CO2. Við getum gripið til aðgerða eins og að skipta yfir í rafbíla, rækta skóg, o.s.frv. Af ofansögðu er ljóst að þær aðgerðir myndu skila mun minni árangri en 0,0001°C efir öld.
Þessir útreikningar eru auðvitað mjög einfaldaðir, en ættu að vera nærri lagi.
Kemur niðurstaðan á óvart ?
Heimildir:
Hnattræn losun á CO2. Scientific American:
https://www.scientificamerican.com/article/co2-emissions-will-break-another-record-in-2019/
Umhverfisráðuneytið, skýrsla 2019:
NATIONAL INVENTORY REPORT
Emissions of Greenhouse Gases in Iceland from 1990 to 2017
Submitted under the United Nations Framework Convention on Climate Change and the Kyoto
Protocol
Ítarefni:
Hið logarithmiska samband.
Einhver kann að malda í móinn og benda á að taka þurfi tillit til þessa logarithmiska sambands við útreikninga. Við erum aftur á móti að vinna með mjög stutt bil á logarithmiska ferlinum og getum því leyft okkur að líta á breytingunna innan þeirra marka sem línulega.