Bjarni vinur okkar Sigrúnar lést á heimili sínu 2. maí, ári eftir að Már bróðir hans lést. Hann var sonur Sigurðar Greipssonar skólastjóra við íþróttaskólann í Haukadal. Bjarni var fæddur 26. apríl 1935 og því 83 ára er hann lést.
Kynni okkar hófust fyrir alvöru er við keyptum landskika af þeim bræðrum, Má og Bjarna, skömmu fyrir aldamótin og fengum síðar möl úr námu Bjarna vegna vegagerðar. Eftir það kom Bjarni oft í kofann okkar til að fá kaffisopa og spjalla. Húsmóðirin í kofanum er tónlistarkennari og Bjarni landsþekktur harmonikkuleikari og lagasmiður. Ekki skorti því umræðuefnið. Tónlist og sögur úr sveitinni í bland.
Bjarni hafði áhuga á náttúruvernd og var ekki laust við að honum þætti nóg um ásókn og átroðslu ferðamanna. Hann vildi ganga vel um landið og var mikið snyrtimenni þegar kom að því að loka malarnámunni sem gengt hafði sínu hlutverki í mörg ár og við höfðum notið góðs af. Bjarni var einstaklega ljúfur og mildur drengur og ekkert fyrir að trana sér fram eða troða öðrum um tær.
Bjarni spilaði iðulega fyrir gesti veitingastaðarins á Hótel Geysi, enda hafði hann reist sér vandað einbýlishús þar á torfunni. Hann var með sína einkasundlaug í bakgarðinum og þar leið honum vel með nikkuna sína. Vafalítið hafa mörg laga hans orðið til á Suðurgafli, en það er nafnið á húsinu. Í eldhúsinu hjá Bjarna smakkaðist kaffið vel.
Ekki má gleyma dráttarvélasafni Bjarna. Hann varði töluverðum tíma í að gera upp dráttarvélar og var unun að sjá hve vandvirkur hann var. Gamli Willys jeppinn hans með númerinu Y6010 var sannkallaður forngripur, en á honum renndi Bjarni oftast í hlað hjá okkur til að fá kaffisopa og spjalla.
Bjarni verður jarðsettur frá Skálholtskirkju föstudaginn 18 maí. Þar munum við kveðja með söknuði gamlan vin.
Við vottum fjölskyldu Bjarna samúð okkar.
Fáeinar myndir og úrklippur úr lífi Bjarna Sigurðssonar: