Jón Ólafsson ritstjóri, skáld, alþingis- og ævintýramaður…

(Pistill ritaður á Moggabloggið á 160 ára afmælisdegi Jóns Ólafssonar 20. mars 2010).

  • Hvaða íslendingur flúði til Noregs tvítugur vegna magnaðs kveðskapar, Íslendingabrags?
  • Hver orti „Máninn hátt á himni skín” 21 árs gamall?
  • Hver var það sem varð að flýja land fyrir skrif sín 23 ára að aldri, og nú til Bandaríkjanna?
  • Hvaða höfðingjadjarfi Íslendingur var það sem Ulysses Grant Bandaríkjaforseti sendi með herskipi í rannsóknaleiðangur til Alaska, og lenti síðan á kendiríi með forsetanum, nú 24 ára?
  • Hver hafði áform um að stofna ríki Íslendinga í Alaska?
  • Hver hefur verið kallaður faðir nútíma blaðamennsku á Íslandi?
  • Hver var fæddur 20. mars 1850?

 

Jón Ólafsson

Jón Ólafsson

Auðvitað var þetta Jón Ólafsson, sem bæði fyrr og síðar fékkst meðal annars við ritstjórn fjölmargra blaða og sat á Alþingi um árabil.  Hann segir af sér þingmennsku þrisvar og í eitt skipti gefur hann þá skýringu að það sé fyrir neðan hans virðinu að sitja á Alþingi með jafn heimskum mönnum og þar væru í meirihluta!

Jón vakti snemma athygli fyrir óvenjulega ritleikni og tilþrif í ræðumennsku. Hann fæddist 20. mars 1850. Jón þótti ljóngáfaður og hafði óbilandi traust á sjálfum sér. Höfðingjadjarfur með afbrigðum og skáld gott. Líklega hefur hann verið ritstjóri fleiri blaða og tímarita en nokkur annar íslendingur fyrr og síðar, en hann hóf blaðamannsferil sinn sextán ára í Latínuskólanum. Fyrstu bók sína; Hefndina, gefur hann út 17 ára og gefur þá einnig út blaðið Baldur…

Um Jón hafa verið skrifaðar tvær mjög áhugaverðar bækur sem notaðar voru sem heimild:

Hjörtur Pálsson: Alaskaför Jóns Ólafssonar 1874. Bókaútgáfa Menningarsjóðs 1975.

Gils Guðmundsson: Ævintýramaður – Jón Ólafsson ritstjóri. Vaka-Helgafell 1987.

Það er væri auðvitað gjörsamlega út í hött að ætla sér að gera ævi Jóns einhver skil í stuttu afmælisspjalli, og því verður þessi umfjöllun mjög yfirborðskennd. Einungis örstutt spjall á léttum nótum, enda ekki annað viðeigandi á afmælisdegi.

Jón var varla tvítugur þegar hann varpaði sprengju inn í samfélagið með kvæði sínu

Íslendingabragur

Íslendingabragur.  Stærri mynd hér.

 

Íslendingabrag.Kvæðið birtist í Baldri 19. mars 1870, daginn fyrir tvítugsafmæli hans. Nótusett yfir heila síðu. Íslendingabragur var ortur undir sjálfum baráttusöng frönsku byltingarinnar, Marseilleansinum. Það dugði ekkert minna.

Sjaldan hefur meiri skruggu slegið niður á voru landi en þegar Íslendingabragur kom á prent”, skrifaði Ágúst H. Bjarnason tengdasonur Jóns í ritgerð um hann. „Fyrst urðu menn alveg orðlausir, klumsa, að nokkur skyldi þora að yrkja og tala svona! En svo hljóp kvæðið eins og eldur í sinu um endilangt Ísland og vakti mönnum hug og djörfung. Það varð því kvæði að þakka, segja kunnugir menn, að stjórnarbótin varð að áhugamáli almennings”….  “Íslendingabragur fór um landið eins og eldibrandur, og Jón var ofsóttur fyrir. Aldrei hefur hann líklega átt sökóttara á ævi sinni“.

Það er skemmst frá því að segja, að útgáfa Baldurs var stöðvuð, sakamál var höfðað þar sem Jón varði sig sjálfur.  Þurfti auðvitað ekki hjálp annarra.  Jón var dæmdur í undirrétti í 50 ríkisdala sekt, málið fór fyrir landsyfirrétt þar sem Jón fékk vægan dóm, en stiftamtmaður áfrýjaði tafarlaust til hæstaréttar. Þar voru gleraugu dómaranna aldönsk og Jóni leist ekki á blikuna og flýði til Noregs 15. október. Hann dvaldi þar í rúmt ár og kynntist þar fremstu andans mönnum Norðmanna eins og Björnstjerne Björnson.

 

Íslendingabragur

Vaknið! vakið! verka til kveður
váleg yður nú skelfinga tíð!
Vaknið ódeigum Ýmishug meður:
ánauð búin er frjálsbornum lýð!
Þjóðin hin arma, hamingju horfna
heillum og frelsi vill stela oss frá
og níðingvaldi hyggst oss hrjá,
hyggur okkur til þrælkunar borna.
Án vopna viðnám enn
þó veitum, frjálsir menn!
og ristum Dönum naprast níð,
sem nokkur þekkir tíð.

En þeir fólar, sem frelsi vort svíkja
og flýja í lið með níðingafans,
sem af útlendum upphefð sér sníkja,
eru svívirða og pest föðurlands.
Bölvi þeim ættjörð á deyjanda degi,
daprasta formæling ýli þeim strá,
en brimrót, fossar, fjöllin há
veiti frið stundar-langan þeim eigi.
Frjáls því að Íslands þjóð
hún þekkir heims um slóð
ei djöfullegra dáðlaust þing
en danskan Íslending.

Lúta hljótum vér lægra í haldi,
lýtur gott mál, því ofbeldi er rammt!
En þótt lútum vér lyddanna valdi,
lútum aðeins nauðugir samt!
Frelsisins sjálfir ei flettum oss klæðum,
frjálsir vér samþykkjum aldregi rangt!
Því víst oss hefnt þess verður strangt!
Von um uppreisn oss brenni í æðum!
Það þussa þjóð er geymt,
sem þeygi oss er gleymt!
Því ristum Dönum naprast níð,
sem nokkur þekki tíð.

 

Um það leyti sem Jón fer til Bandaríkjanna 23 ára gamall og landflótta í annað sinn, nú vegna greinarinnar „Landshöfðingja-hneykslið”  í Göngu-Hrólfi, voru vesturferðir Íslendinga nýhafnar. Litla ísöldin réði enn ríkjum og veðráttan var ómild á Íslandi.  Jón gerist einn af leiðtogum Íslendinga í Vesturheimi og vildi að þeir stofnuðu voldugt ríki í Alaska. Bandaríkjaforseta var skrifað bréf, Jón fór ásamt öðrum þvert yfir Bandaríkin þar sem herskipið Portsmouth beið Jóns og félaga hans, sem skráðir voru sjóliðar í hernum, að undirlagi Bandaríkjaforseta og flutti þá norður til Alaska  á 24 dögum þar sem þeir skoðuðu landkosti og leist vel á. Siglt var sömu leið til baka, haldið þvert yfir Bandaríkin þar sem ítarleg skýrsla var skrifuð í New York. Bæði á íslensku og ensku. Jón gekk á fund Ulysses Grant Bandaríkjaforseta og afhenti skýrsluna…

Myndin af Jóni sem er hér fyrir ofan er tekin í Alaskaförinni og er Jón þar í einkennisbúningi bandaríska flotans.

 

 

Ulysses Grant

Ulysses Grant

Bróðursonur Jóns, Björn Pálsson (Ólafssonar skálds) Kalman (sá hinn sami og gæti hafa verið fyrirmynd austuríska snillingsins Stefan Zweig í sögunni Manntafl), sagði frænda sínum, Hákoni Bjarnasyni skógræktarstjóra, og hafði það eftir afa hans, Jóni Ólafssyni , að Grant forseti og Jón hefðu sest að sumbli, eftir að Jón afhenti forsetanum skýrslu Alaskafaranna. Vel fór á með þeim. Og kom þar brátt að þeim þótti fullþröngt um sig í Hvíta húsinu og lögðu leið sína á helstu knæpur Washingtonborgar. Þegar þeim tók að leiðast, héldu þeir aftur heimleiðis, og fylgdi Jón forsetanum að dyrum Hvíta hússins.  Grant vildi þá halda áfram, en Jón kvaðst vera orðinn of syfjaður og slæptur og hafnaði boðinu.  Grant sagðist þá myndu blóta Bakkus einn, en hafði orð á því að sér væri fjár vant. Jóni fannst hægur vandi að bæta úr því  og sagði Bandaríkjaforseta að hann skyldi lána honum hálfan silfurdal sem hann væri með á sér. Því tók Grant fegins hendi, enda orðinn þurrbrjósta. Við svo búið kvöddust þeir, og er óvíst með öllu að þeir hafi sést eftir það. Auðvitað var talað um það að hinn íslenski lánadrottinn vitjaði fjárins við hentugleika, en það fórst fyrir, svo að þaðan í frá gat Jón Ólafsson spaugað með það, þegar honum sýndist, að hann teldi til skuldar hjá Bandaríkjaforseta.  Afkomendur Jóns telja sig nú eiga tilkall til silfurdalsins hálfa og munu væntanlega innheimta hann við fyrstu hentugleika þegar þeir eiga leið um Washingtonborg … 

 

Jón Ólafsson

Jón Ólafsson

Ekkert varð þó úr landnámi Íslendinga í Alaska og Jón sneri aftur til Íslands 1875. Síðan fór hann aftur til Vesturheims og gerðist ritstjóri Lögbergs og síðanHeimskringlu. Jón var aðalhvatamaður að  Íslendingadags-hátíðinni í Winnipeg sem haldin hefur verið óslitið síðan 1890.

Árið 1893 gaf Jón út mánaðarritið Öldina, sem var afbragðsgott menningarrit og birti úrvals skáldskap, fræðsluefni og menningarumræðu. Stephan G. orti mikið í Öldina. Jón sneri aftur til Íslands og sat m.a. á þingi um skeið. Jón var allgott skáld og hann hefði gjarnan viljað rækta þá gáfu betur. En hann var ákafur athafnamaður og hafði því lítið tóm til yrkinga. Á Alþingisvefnum má lesa æviágrip Jóns.

 

Jæja, það er ástæðulaust að þreyta afmælisgesti á meira rausi um Jón. Bækling hans um

Jón Ólafsson

Jón Ólafsson

Alaska, lýsing á landi og lands-kostum, ásamt skýrslu innar íslensku sendinefndar um stofnun íslenskrar nýlendumá lesa með því að smella hér.  Þar er allt lesmálið að finna ásamt nokkrum myndum sem nappað var úr bókunum sem minnst er á hér að ofan. Það er gaman að sjá hve vönduð og ítarleg þessi skýrsla er. Bæklingurinn er m.a. varðveittur á bókasafni Bandaríkjaþings, Library of Congress.

Líklega hefur Jón Ólafsson verið einn mesti bloggari sem Ísland hefur alið, þó svo að hann hafi ekki haft yfir öðru stílvopni að ráða en lindarpenna sem hann mundaði óspart. Hann þurfti hvorki tölvu né Internet til að koma sínum hugmyndum á framfæri…

Til hamingju með daginn ágæti langafi!

— — —

Svo vill til, að hinn ágæti útvarpsmaður  Guðmundur Andri Thorsson hefur undanfarin fjögur sunnudagskvöld fjallað um Jón Ólafsson í þáttum sínum Andrarímum. Hlusta má á þættina á vef RÚV, t.d. með því að hlaða niður mp3 skrám. Best er að hlaða þeim niður með því að hægrismella á þær (Save link as), og nota síðan t.d. Windows Media Player til að hlusta á þær.  Smella hér.

Eða smella hér beint á skrárnar: 2010.02.21.mp32010.02.28.mp32010.03.07.mp32010.03.14.mp3

Athugið að umfjöllunin um Jón er frekar aftarlega í hljóðskránum, en auðvelt er að fara fram og aftur í tíma með sleðanum sem er í forritinu sem nptað er til að hlusta…

 

Rafrit:

Alaska,  Lýsing á landi og lands-kostum, ásamt skýrslu innar íslensku sendinefndar
um stofnun íslenskrar nýlendu

— — —

Hvað ef Alaska væri nýlenda Íslendinga og teldi 100 milljónir íslenskumælandi manna? Að því keppti Jón Ólafsson ritstjóri, einn mesti hugsjóna- og ævintýramaður Íslandssögunnar. „Það hlæja ugglaust mörg fífl að þessu,“ skrifar hann um áætlanir sínar, en það geri ekki til því alltaf hafi verið hlegið að góðum hugmyndum.aginn eftir kom Valdemar Briem svo sínu kvæði á hann líka, og hann var eittkvað álíka fljótur að yrkja það…”

Sjá grein Helga Hrafns Jónssonar hér á Lemúrnum

— — —

Eftirfarandi er úr Moggabloggi 24. desember 2012:

http://agbjarn.blog.is/blog/agbjarn/entry/1274067/

Jón Ólafsson ritstjóri, átti auðvelt með að yrkja og var fljótur að því. Eftirfarandi birtist í Iðunni – Tímarit til skemmtunar, nytsemdar og fróðleiks árið 1916 sem lesa má hér. Umfjöllunin um Jón Ólafsson hefst á blaðsíðu 82.

Eftirfarandi úrklippa er frá blaðsíðum 84-85, en þar er fjallað um Álfadansinn:

“… Piltar léku þá oft sjónleika um miðsvetrarleytið og höfðu það til siðs að syngja eitthvert ný-ort kvæði undan leiknum. í þetta sinn (1873) höfðu þeir fengið loforð hjá Jóni um að yrkja kvæðið, en hann var þá á einhverju slarki, og svo rann upp dagurinn, að ekki fengu þeir kvæðið. Kristján Eldjárn og annar maður til fóru þá heim til Jóns kl. 2 um daginn, en hann bjó þá eins og síðar á horninu á Laugavegi og Skólavörðustíg.

Þegar þeir koma inn til Jóns, sefur hann svefni hinna réttlátu. Kristján veður þá að honum, dregur hann harkalega fram á rúmstokkinn og heimtar af honum kvæðið; en Jón hafði ekkert kvæði ort. Lofar samt að gera það svo tímanlega, að þeir geti sungið það um kvöldið, og það varð:

 

Halló, halló!
Á bylgjandi bárum
nú beitið ei árum,
en seglið pér greiðið,
því gott er nú leiðið
og látum nú klofinn hinn löðrandi sjó,
því leiðið er inndælt. Halló!


 

Annað kvæði, sem Jón var að eins eina »matmálsstund« að yrkja, var hið þjóðkunna kvæði »Máninn hátt á himni skín«. Þeir höfðu komið sér saman um það ungir mentamenn í bænum, ég held að undirlagi Valdemars Briems, að halda álfadans á gamlaárskvöld 1871.

Verkum var þannig skift niður, að Ólafur sá, sem nefndur var »HvítaskáId« í skóla, síðar prestur að Ríp, skyldi yrkja upphafskvæðið, er álfarnir komu á svellið, Jón Ólafsson sjálfan álfadansinn og Valdemar Briem um brautförina af svellinu.

Jón varð hugfanginn af hugmyndinni og gekk um kvöldið heim með Eiríki Briem, sem þá bjó í Hjaltesteðshúsi. Þar var matur á borðum, hangikjöt og annað góðgæti og bauð Eiríkur Jóni að borða. Sett ust þeir niður sinn hvoru megin við borðið, en Jón sinti ekki matnum, heldur tók að yrkja, og það stóð heima, þegar Eiríkur var búinn að borða, hafði Jón lokið kvæðinu. Daginn eftir kom Valdemar Briem svo sínu kvæði á hann líka, og hann var eittkvað álíka fljótur að yrkja það…”

– – –

Álfadansinn  (Eins og hann birtist í Þjóðólfi 23. janúar 1872):

BLYSFARARDANS
[Sungið við „Álfadansinn” á Reykjavíkurtjörn (— með færeyska Vikivaka-laginu: „Góða skemtan gjöra skal þars eg geng í dans),  —   í blysför eðr við  blysburð  stúdenta ogskólapilta á gamlárskvöld 31. Desember 1871].

1.  Máninn hátt á himni skín
hrímfölr og grár.
Líf og tími Iíður,
og liðið er nú ár.

K ó r : Bregðum blysum á lopt
bleika lýsum grund;
glottir tungl, en hrín við hrönn,
og hraðfleig er stund.

2.  Kyndla vora hefjum hátt,
horfið kveðjum ár.
Dátt vér dansinn stigum,
dunar ísinn grár.

Bregðum blysum á lopt o. s. frv.

3.  Nú er veðr næsta frítt
nóttin er svo blíð.
Blaktir blys í vindi,
blaktir líf í tíð.

Bregðum blysum á lopt o. s. frv.

4.  Komi hver sem koma vill,
komdu nyja ár.
Dönsum dátt á svelli,
dunar ísinn blár.

Bregðum blysum á lopt o. s. frv.

5. Færðu unað, yndi’ og heill
öllum vættum lands.
Stutt er stund að líða,
stígum þétt vorn dans.

Bregðum blysum á lopt o.s.frv.

6. Færðu bónda’ í búið sitt
björg og heyja-gnótt.
Ljós í lopti blika,
líðr fram á nótt.

Bregðum blysum á lopt o.s.frv.

7. Gæfðir veittu’, en flýi frost,
fiskinn rektu’ á mið.
Dunar dátt á svelli,
dansinn stígum við.

Bregðum blysum á lopt o.s.frv.

8. Framför efldu, fjör og líf
færðu til vors lands.
Stutt er stund að líða,
stígum þétt vorn dans.

Bregðum blysum á lopt o.s.frv.

9. Máninn hátt á himni skín
hrímfölr og grár.
Líf og tími líður,
og liðið er nú ár.

Bregðum blysum á lopt
bleika lýsum grund.
Glottir tungl, en hrín við hrönn
og horfin er stund.

 

Jón var fæddur 1850 og því 21 árs þegar hann orti Álfadansinn eða Blysfarardansinn skömmu fyrir gamlársdag 1871.




Viðauki.    Fengið að láni úr 100 ára afmælisriti Verzlunarskólans
sem gefið var út árið 2005:

Fengið að láni úr 100 ára afmælisriti Verzlunarskólans sem gefið var út árið 2005.