Þessi birkiplanta er umvafin smára. Smárinn er með rótarbakteríur sem vinna nitur eða köfnunarefni úr loftinu á sama hátt og lúpínan. Þess vegna er grasið í smárabreiðum yfirleitt grænna en annars staðar.
Landið sem ég hef verið að planta þúsundum skógarplantna í á undanförnum hálfum öðrum áratug er nokkrir hektarar að stærð. Árangur er mjög misjafn þar sem landið var ófrjór lyngmói vegna mikillar beitar á árum áður, þó það sé nú greinilega aðeins farið að breytast í frjósamari grasmóa vegna friðunar. Það er opið fyrir næðingi af hálendinu og einnig er það víðast hvar flatt þannig að ískaldur kuldapollur á auðvelt með að myndast yfir öllu landinu. Þetta er því erfitt land til skógræktar, en árangur er allnokkur þó stundum hafi afföll verið mikil. Ekki er ætlunin að rækta þéttan nytjaskóg, heldur aðeins að gera landið fallegra og mynda skjól fyrir dýr merkurinnar, fugla og mannfólkið.
Væri hægt á einfaldan og ódýran hátt að bæta ófrjóan jarðveg og erfiðar aðstæður þannig að lifun og vöxtur verði meiri? Dreifa jarðvegsbætandi gróðri og mold með sveppagróðri um leið og plantað er? Um það fjallar þessi pistill. Vafalítið hafa ýmsir gert svona tilraunir áður, en ef til vill hefðu fleiri hug á því, fyrst og fremst ánægjunnar vegna. Fátt er yndislegra en að sjá tré sem maður hefur sjálfur sett niður dafna vel. Það sakar ekki að reyna…
Í sumar sáði ég í tilraunaskyni smárafræi í skógarplöntubakka fyrir útplöntun. Notaði bæði hvítsmára og rauðsmára. Í hverjum bakka eru 40 skógarplöntur, t.d. birki. Landið er frekar ófrjótt og er hugmyndin að reyna að láta smárann framleiða áburð fyrir plöntuna og örva þannig vöxtinn fyrstu árin. Sem sagt, lifandi áburðarverksmiðja fylgir hverri plöntu.
Ég átti einnig nokkrar plöntur sem ég hafði sett í stærri potta með betri mold. Þær fengu einnig skammt af smárafræi síðastliðið sumar fyrir útplöntun. Ein þeirra, sú sem er á myndinni, fór ekki strax í jörð, heldur hefur var eins konar gæludýr til að dást að. Síðar var henni plantað þar sem auðvelt er að fylgjast með henni, þ.e. á stað með ófrjósömum jarðvegi.
Plantan á myndinni hefur fengið óþarflega mikið af smárafræjum, en þetta er bæði hvítsmári og rauðsmári. Moldina smitaði ég með rótargerlum því að vökva með vatni sem búið var að smita með því að blanda smávegis af smitaðri mold í vatnið. Plantan virðist þrífast vel í smáranum og vera vel græn. Kannski bakteríurnar séu farnar að vinna sitt verk strax?
Það verður spennandi á næstu árum að fylgjast með þeim plöntum sem fengið hafa smára í vöggugjöf.
Smárafræin og smitið keypti ég í Líflandi. Fræið í 1 kg pokum. Smitið í litlum pokum, etv. um 100 g. Hvítsmári framleiðir meira nitur en rauðsmárinn og gæti því hentað betur.
Í gömlum þroskuðum skógi er mikið um sveppi í moldinni. Við sjáum sveppina stundum gægjast upp úr jarðveginum og þá tínum við stundum girnilega sveppi sem við teljum ætilega, en neðanjarðar mynda sveppir gríðarstórt kerfi sem flytur og viðheldur næringu sem kemur öðrum gróðri til góða, Í ofbeittum lyngmóa er lítið sem ekkert um svona sveppagróður og kemur það niður á vexti trjáplantnanna.
Það hefur verið prófað að flytja dálitla mold úr gömlum skógi og setja með hverri plöntu sem gróðursett er. T.d. mold úr furuskógi fyrir furuplöntur og mold úr gömlum birkiskógi fyrir birkiplöntur. Þeir sem hafa prófað þetta telja að árangurinn geti verið undraverður. Nú er bara að prófa…
Hvernig væri að einhver garðyrkjubóndinn framleiddi skógarplöntur í sveppasmitaðri mold úr gömlum skógi og setti með hverri plöntu nokkur smárafræ? Þangað til hægt verður að kaupa svona tilbúið er bara að prófa að gera það sjálfur 🙂
Sem sagt, hverri plöntu fylgir nestispakki með lifandi áburðarverksmiðju sem nærir plöntuna um ókomin ár og, ef vel tekst til, eykur vöxt og lifun fyrstu árin.