Er skóg ég skóp…

 

Timinn

Hvernig fléttar maður saman tímann og lífið? Jafnvel tímann og eilífðina? Er það yfirhöfuð hægt? Hvernig kemur maður í veg fyrir að tíminn fljúgi frá manni?

“…Sed fugit interea, fugit irreparabile tempus, singula dum capti circumvectamur amore”

skráði rómverska skáldið Virgill fyrir langalöngu á blað. Hvernig blað? Það skiptir ekki máli. Ég skrifa á rafblað, Virgill skrifaði á sitt blað.

“…En meðan hann flýgur, flýgur tíminn og kemur aldrei aftur, meðan við göngum sem fangar ástar okkar á smáatriðum”.

Kannski er þetta nokkurn vegin merkingin. Kannski ekki. Það skiptir heldur ekki máli. Þetta var um svipað leyti og Jesús fæddist. Langt er síðan, en kveðskapur Virgils hefur ekki glatast í tímans rás.

Tempus fugit þýðir reyndar tíminn flýr. Það eru bara smáatriði. Óþarfi að hafa áhyggjur af því.

Hvernig er hægt að koma í veg fyrir að tíminn fljúgi frá manni? Er það hægt? Jú með því að mynda fléttu tímans og lífsins, tímans og hugans.

Fyrir langalöngu setti ég lítil tré í jörð í Haukadal. Þau voru þá agnarsmá og bara eins árs greyin.   Í gær, nánast sex tugum ára síðar, heimsótti ég þessi börn mín í skóginum fagra. Þau virðast hafa dafnað vel og eru nú miklu stærri en ég. Miklu fallegri. Hve mörg tré? Veit ekki, en kannski svosem þrjátíuþúsund. “Eittþúsundogtvöhundruð á dag í tuttuguogfimm daga” hugsa ég. Kannski meira, kannski minna. Í gær var ég stoltur. Þetta var nefnilega minn skógur.

Í dag rölti ég um annan skóg. Miklu minni. Fyrir átján árum byrjaði ég að setja niður agnarsmá tré fullur bjartsýni í mitt eigið land skammt frá skóginum í Haukadal. Tíminn flaug meðan ég var fangi ástar minnar á smáatriðum eins og Virgill sagði. Trén sem ég hafði hlúð að fyrir hálfum öðrum áratug voru sum orðin stærri en ég. Tvöfalt stærri, þrefalt stærri. Sum náðu þó aðeins í ökkla og önnur í hné, eða eyra.  Íslenskt birki og erlendir nýbúar sem eru orðnir íslenskir þegnar. Nú horfði ég ekki lengur niður á trén, heldur upp til þeirra. Þau litu niður til mín og hvöttu til að gera meira. Kannski ég hlýði…

Nú eru sjálfsánar litlar plöntur bókstaflega úti um allt. Afkomendur þeirra sem ég gróðursetti með eigin hendi. Eiginlega barnabörn mín. Ég fyllist unaði og fögnuði þegar ég sé litlu greyin.

Tímafléttu mætti kannski kalla þetta. Eitt er þó víst að það hjálpar manni að skynja gang tímans og koma í veg fyrir að hann fljúgi frá manni með því að skapa skóg þó lítill sé.

Þannig varðveitum við okkar dýrmæta tíma… Tíminn minn er bara agnarsmár hluti eilífðarinnar…