Aðeins 0,3% breyting í meðalhita jarðar frá því fyrir iðnbyltingu…

Lóðrétti ásinn á líuritinu er þaninn gríðarlega mikið út. Stækka má mynd með því að smella á hana.

Lóðrétti ásinn á líuritinu er þaninn gríðarlega mikið út. Um það bil einn millímetri á hitamælinum er stækkaður næstum 100 falt í 100 mm eða 10 cm.

 

Síðastliðin 150 ár, eða frá um 1860 hefur meðalhiti jarðar hækkað um því sem næst 0,8°C. Einhverjir vilja kannski miða við skammvinna kulda- eða hitatoppa og fá þá út breytingu sem nemur 1,0°C, en þá er nú nánast verið að teygja lopann. Hvað sem því líður, þá er verið að miða við hækkun frá síðustu áratugum Litlu ísaldarinnar svokölluðu.

Meðalhiti jarðar er um 15°C.   Á myndinni hér að ofan er reyndar sýnt frávik frá þessum meðalhita.   Þess vegna er lóðrétti ásinn kvarðaður frá -0,4° upp í +0,6°C. Lóðrétti ásinn nær yfir aðeins 1 gráðu, þ.e. sama og bilið milli tveggja strika á bleika mælinum hér fyrir neðan.   Þetta er gríðarleg stækkun, ef til vill  um 100-föld!

Þessi mikla útþensla á lóðrétta skalanum gerir það að verkum að almennt áttar fólk sig ekki á hver hitabreytingin er í raun.

Á bleika mælinum (reyndar hvítur mælir á bleikum vegg)  má sjá meðalhita lofthjúpsins við yfirborð  flökta milli áranna 1860 og 2010. Þar sjáum við betur hvað þetta er í raun lítil breyting. Hún er svo lítil að við yrðum hennar ekki vör í daglegu amstri. Á venjulegum degi er algengt að lofthitinn breytist 10 sinnum meira, og yfir árið miklu miklu meira. Þetta er minna en munur á hita í herbergjum heima hjá okkur.

Lofthitinn breytist um tæplega 1,0°C við 100 metra breytingu á hæð. Nánar tiltekið um 0,65°C. Hann breytist um 0,1°C við 15 metra hæðarbreytingu en 0,1°C er sama og hæðin á hverjum litlum ferningi myndinni hér að ofan. Við getum jafnvel minnst á að stundum er verið að metast um hvað hafi verið hlýjasta árið frá upphafi mælinga, mælt yfir alla jarðarkringluna. Metast þá stundum vísindamenn jafnvel  um mun sem aðeins nemur 0,02°C…  Á myndinni kemur fram að á fyrstu tugum þessara mælinga var mælióvissan +/-0,2°C, en á síðutu árum +/-0,1°C.

Samt eru menn að metast og jafnvel rífast hástöfum um breytingar sem eru það litlar að þær eru ekki tölfræðilega marktækar.   Sjá t.d. hér.

Hitamælir 1860-2010

Hitamælir 1860-2010

Við vitum að það var ámóta hlýtt og í dag fyrir 1000 árum, allnokkuð hlýrra fyrir 2000 árum og töluvert hlýrra  fyrir um 3000 árum. Samt erum við að hræðast hlýindin sem við njótum í dag og  ásaka okkur um að hafa valdið þeim. Reyndar er þessum hlýindum aðeins misskipt. Hér á landi höfum við verið lánsöm og notið meiri hlýnunar en 0,8°, en það er önnur saga.

Maður hlýtur samt að dást að því hve stöðugur lofthiti jarðar er.
Í vísindum er vaninn að mæla hitann í Kelvin gráðum, en þar byrjar skalinn við alkul. Sólin hitar jörðina okkar frá alkuli í lífvænlegan hita, eða frá -273°C   í   +15°C að jafnaði.
Það er jafngilt hitun frá  0 K   til   288 K.

Á Kelvin skalanum er meðalhitinn 288K (um 15°C). Hitabreytingin gæti því verið frá 288,0K   í   288,8K. Þetta er ekki nema um 0,3% breyting sem verður að teljast lítið.    Merkilega lítið.

Einhver kann að malda í móinn og segja hækkunina vera mun meiri, eða frá 15,0°C   í   15,8°C sem er við fyrstu sýn um 5% hækkun. Það er þó markleysa að miða við Celcíus gráður. Við gætum alveg eins miðað við Farenheit og sagt hækkunina vera frá 59,0°F   í   60,5°F og fengið út 2,5% hækkun.  Nei, rétta aðferðin er að miða við Kelvin gráður og þá fæst 0,3% hækkun á síðastliðnum 150 árum.

 

Álíka hlýtt var fyrir 1000 árum og í dag.  Blái ferillinn nær til ársins 1854, en hefur verið framlengdur lauslega til dagsins í dag með rauðum lit. Ferillinn er samkvæmt mælingum í borholu á Grænlandsjökli. Sjá   www.climate4you.com ,  kafla “Global Temperature”.  Þetta er sem sagt á Grænlandi en ekki  meðalhiti jarðar, en gefur samt væntanlega í stórum dráttum hugmynd um þróunina. Nánar hér um hlýindin fyrir 1000 árum.

Hafi verið ámóta hlýtt og í dag þegar Ísland byggðist (Medieval Warm Period) var þó enn hlýrra fyrir um 2000 árum (Roman Warm Period) og mun hlýrra fyrir rúmum 3000 árum (Minoan Warm Period).  Hvers vegna?

 

Mynd 1: Niðurstöður mælinga á ískjörnum fengnum úr rúmlega 3000 metra djúpri holu sem boruð var í Grænlandsjökul. Skammvinn hlýskeið eru sýnd með grænu.

Niðurstöður mælinga á ískjörnum fengnum úr rúmlega 3000 metra djúpri holu sem boruð var í Grænlandsjökul. Skammvinn hlýskeið eru sýnd með grænu.  Takið eftir að lóðrétti skalinn vinstra meginn sýnir lofthitann á Grænlandsjökli, en lóðrétti skalinn hægra megin sýnir nokkurn vegin áætlað frávik frá meðalhita jarðar, en sú breyting er hér áætluð um helmingi minni en hitabreytingin á jöklinum.

 

 

Hitabreytingin á undanförnum árum er í raun merkilega lítil og sést varla sé miðað við Kelvin hitaskalann 🙂 :

Sé teiknaður hitaferill sem sýnir hlýnun jarðar frá alkuli í Kelvín-gráðum, þá sést ekki nein breyting. Svo lítil er hún.

Sé teiknaður hitaferill sem sýnir hlýnun jarðar frá alkuli í Kelvín-gráðum, þá sést ekki nein breyting. Svo lítil er hún.

 

Til umhugsunar:

Loftslagskerfin samanstanda af ólgukenndu (turbulent) hafinu sem er í snertingu við ólgukenndan lofthjúpinn. Þessi kerfi eru á reikistjörnu sem snýst í sífellu og er böðuð í sólarljósi sem skín ójafnt á yfirborð jarðar, mest nærri miðbaug en minnst næri pólunum. Vetur og sumur skiptast á. Sífelldur flutningur á varma og raka á sér stað milli þessara síkviku kaótísku kerfa.

Í hafinu eru straumar og sveiflur sem ná yfir tímabil sem mælast frá dögum til árþúsunda. Hafið hefur áhrif á lofthjúpinn og öfugt. Yfirborð jarðar er mjög óreglulegt og mótar það vindakerfin. Rakinn í lofthjúpnum hefur gríðarlega mikil áhrif og er aðal áhrifavaldurinn sé litið til hlýnunar af völdum svokallaðra gróðurhúsaáhrifa. Jafnvel inngeislun sólar er sveiflukennd.

Stundum eru leggjast áhrif þessara tilviljunarkenndu kerfa saman, heildaráhrif þeirra geta orðið tiltölulega mikil um tíma, en á öðrum tímum vinna þau á móti hverju öðru og verða þá áhrifin lítil.

Þetta kaótíska kerfi á yfirborði jarðar gerir það að verkum að hitafarið getur orðið ólgukennt, án þess að ytra áreiti svo sem breytileg sólgeislun eða breytilegur styrkur koltvísýrings þurfi að koma til. Þessar kaótísku, síkviku og ólgukenndu sveiflur geta ef til vill útskýrt hitasveiflur sem orðið hafa á undanförnum árþúsundum frá þeim tíma sem köllum yfirleitt ísöld og sjást á myndinni hér að ofan.

 

 

Spurning:  Var loftslagið fyrir 150 árum, þ.e. áður en það byrjaði að hlýna, betra og “réttara” en í dag? Vill fólk almennt hverfa aftur til Litlu ísaldarinar?
Sjá til dæmis: Hvað er eðlilegt veðurfar…?

 

 

“Svo gengur það til í heiminum að sumir hjálpa erroribus á gang
og aðrir leitast við að útryðja aftur þeim hinum sömu erroribus.
Hafa svo hvorir tveggju nokkuð að iðja.”

 

 Árni Magnússon handritasafnari.