Ágúst H. Bjarnason, verkfr. Ljósmengun Útgáfa: 17.11.2005
Auðlind sem er að hverfa. Ljósmengun frá illa hannaðri lýsingu er helsti óvinur þess sem vill njóta fegurðar himinsins. Þetta er ekki aðeins vandamál hérlendis, heldur víða um heim. Nú er að vaxa upp kynslóð sem varla hefur séð stjörnur aðrar en þær allra skærustu. Hve margir skyldu hafa séð okkar eigin Vetrarbraut? Jafnvel norðurljósin hverfa í glýjuna.
Alþjóðleg samtök áhugamanna og hagsmunaaðila á þessu sviði, International Dark-Sky Association - IDA (http://www.darksky.org), hafa víða náð góðum árangri á þessu sviði með því að benda á vandamálið og úrlausnir. IDA er með mjög gagnlega vefsíðu.
Hér á landi hefði mátt ætla að við værum blessunarlega laus við þessa mengun eins og aðrar, en það er öðru nær. Ljósmengun hér er engu minni en víða í hinum stóra heimi. Bjarmi yfir höfuðborginni er ótrúlega mikill, svo og bjarmi frá gróðurhúsum í dreifbýlinu.
Hér til hægri eru tvær myndir teknar í mars 1997:
Fyrri myndin er tekin frá Garðabæ yfir hluta Reykjavíkur. Vel má sjá bjarmann, sem liggur eins og hjúpur yfir borginni. Aðeins allra skærustu stjörnur sjást, og Vetrarbrautin sést ekki lengur. Ein bjartasta halastjarna sem sést hefur á síðustu árum prýddi stjörnuhimininn. Mjög erfitt var að ljósmynda hana frá Reykjavík.
Næsta mynd sýnir Hale-Bopp og aragrúa stjarna. Hér var myrkrið það gott, að hægt var að hafa ljósop myndavélarinnar opið í 10 mínútur. Þá koma fram ótal stjörnur, sem venjulega sjást ekki með berum augum. Einnig má sjá bláan rafhala halastjörnunnar, en hann sést ekki með berum augum. Myndin var tekin frá Keilisnesi, áður en Reykjanesbrautin var lýst upp með illa skermuðum ljósum. Lýsing utanbæjar er sífellt að aukast, og oftar en ekki gleymist að huga að góðri lýsingartækni. Lýsingin veldur óþarfa bjarma, og ekki síður óþarfa glýju.
Hefur þú lesandi góður prófað að horfa til himins þar sem himininn er ómengaður? Prófaðu að fara út úr bílnum og horfa til himins ef þú ert á ferðalagi utan þéttbýlis í stjörnubjörtu veðri. Þú verður ekki fyrir vonbrigðum!
Dr. Þorsteinn Sæmundsson stjarnfræðingur hefur í blaðagreinum og útvarpsviðtölum bent á þetta vandamál. Vonandi fara fleiri að gera sér grein fyrir þessu vaxandi vandamáli. Ef heldur áfram sem horfir verður stjörnuhimininn ósýnilegur flestum innan skamms. Þetta eru sameiginlegir hagsmunir okkar allra.
Hvað veldur ljósmengun? Ljósmengum er af ýmsum toga. Algengasta orsökin er slæmur frágangur á ljósastæðum. Ljós berst þá til hliðar eða upp og verður sýnilegt sem bjarmi yfir borgum eða gróðurhúsum.
Sum götuljós eru mjög illa hönnuð, og þekkja margir kúlu- eða keilulaga ljósakúpla sem einkum eru algengir í íbúðahverfum. Í stað þess að beina ljósinu niður er því varpað um allar trissur, mest beint í augu vegfarenda.
Ljóskastarar, sem ætlaðir eru til að lýsa upp byggingar, geta verið slæmir, því töluvert ljós fer fram hjá byggingunni beint upp í háloftin.
Önnur gerð af ljósmengun stafar af skærum ljósum sem skína beint í augun og valda glýju, þannig að augun verða ónæmari og krefjast meiri lýsingar, sem veldur enn meiri ljósmengun,..... o.s.frv!
Hvað er til ráða? Ljósabúnaður: Nota góðan ljósabúnað sem varpar ljósinu eingöngu niður. Ljós sem berst til hliðar eða upp er til einskis nýtt, en veldur bjarma og glýju í augum. Vel skermuð ljós (og þar með minni glýja í augun) gera það að verkum, að skyggni að nóttu til verður meira en ella! Þannig má komast af með minni perur og spara orku og peninga. Ekki nota óþarflega stórar perur.
Gróðurhús: Gróðurhúsabændur ættu að huga vel að þeim kostnaði sem stafar af því að senda ljósið upp í háloftin. Þarna er væntanlega fundið fé. Með betri nýtingu á ljósinu gætu þeir vafalaust sparað stórfé, og jafnframt aukið uppskeruna.
Þjófavörn: Stundum telja menn að gott sé að hafa útiljós kveikt í öryggisskyni, þ.e. til að minnka líkur á innbrotum. Ljós sem síloga draga athygli að mannvirkinu sem ætlunin var að verja, en mun áhrifameira er að hafa ljós sem kvikna við merki frá hreyfiskynjara, en eru að öllu jöfnu slökkt. Nágrannar verða þá varir við mannaferðir, og hinir óboðnu gestir hörfa.
Sumarhús: Vaxandi sumarhúsabyggð utan þéttbýlis veldur áhyggjum. Tilheiging virðist vera hjá sumum sumarhúsaeigendum að vera með útljós kveikt, jafnvel þegar enginn er við. Ljósin hjálpa óboðum gestum að finna sumarhúsið. Það er einnig tillitsleysi við nágrannana að vera með logandi og illa skermuð útiljós að óþörfu.
Hvers vegna að hafa kveikt á útiljósum, þegar enginn er útivið? - Munið eftir slökkvaranum! - Notið hreyfiskynjara við útiljósin, ef ætlunin er að fæla burt óvelkomna gesti. - Veljið ljósastæði sem lýsa eingöngu niður. - Notið ljósadimmi.
Einstaklingar, sem setja upp ljós utanhúss, ættu að taka tillit til nágranna sinna!
Munið eftir leynivopninu gegn óboðnum gestum; þ.e. hreyfiskynjaranum sem kveikir útiljósin þegar einhver nálgast! Ekki gera þeim lífið auðveldara með því að lýsa upp sumarhúsið í tíma og ótíma.
Þjóðvegalýsing: Aukin lýsing á þjóðvegum landsins veldur áhyggjum, en þar þyrfti að huga betur að vali á ljósastæðum en gert hefur verið hingað til.Til að varðveita fegurð himinsins væri æskilegt að sjá tekið á þessum málum í greinargerðum aðal- og deiliskipulags, svo og í umhverfisstefnum. Aðeins ætti að nota fullskermuð ljós á þjóðvegum.
Hönnun: Verkfræðingar, tæknifræðingar, arkitektar og aðrir sem hanna lýsingu utanhúss ættu að taka höndum saman og taka tillit til þessarar mengunar við hönnun á nýframkvæmdum og við lagfæringar á eldri búnaði.
Aðal- og deiliskipulag: Skipulagsfræðingar og landslagsarkitektar, sem vinna að aðal- og deiliskipulagi, ættu að setja ákvæði um skynsamlega lýsingu í greinargerð skipulagsins.
Í umhverfisstefnu Borgarbyggðar, sem samþykkt á fundi bæjarstjórnar 25. apríl 2000 stendur m.a: “11. Ljósmengun: Við uppsetningu og endurnýjun götulýsingar verður þess gætt að ljósmengun utan svæðis verði í lágmarki”. Þetta er til mikillar fyrirmyndar.
Ýmislegt er hægt að gera til að minnka ljósmengun. Hér fyrir aftan eru nokkrar tengingar að vefsíðum þar sem fræðast má nánar um aðgerðir. Nokkrar ljósmyndir hér fyrir aftan varpa ljósi á vandamálið. Aðalatriðið er að menn séu meðvitaðir um málið og láti skynsemina ráða.
Hver er reynsla annarra þjóða? Minni orkunotkun er ótrúlega fljót að skila sér. Sem dæmi má nefna San Diego þar sem ráðist var í að lagfæra götulýsingu með því að skipta um ljósker. Eftir aðeins þrjú ár hafði minni orkunotkun greitt allan kostnað, og nú nemur sparnaðurinn þrem milljónum dollara á ári! Ótrúlegt en satt. Stjörnur eru aftur farnar að skreyta himinhvelfingua eftir þessar lagfæringar.
Nokkrar myndir. Myndirnar hér fyrir neðan eru frá ýmsum áttum. Sumar varpa skýrara ljósi á vandamálið og úrlausnir, en aðrar eru af ómenguðum stjörnuhimi og sýna hvers menn eru að fara á mis þar sem ljósmengun er mikil.
Oft, en ekki alltaf, má smella á mynd til að kalla fram aðra stærri.
Ört vaxandi sumarhúsabyggð er eitt helsta áhyggjuefni stjörnuskoðunarmannsins. Hvers vegna? Jú vegna þess að margir virðast telja sér skylt að flytja ljósmengun þéttbýlisins út í sveitir landsins og setja upp skær ljós utanhúss sem skera í augu nágrannans. Ekki aðeins þegar einhver er í bústaðnum, heldur dag og nótt, árið um kring. Þetta er mikill misskilningur ef ætlunin er að fæla óboðna gesti frá. Góð útiljós hjálpa þeim að rata að bústaðnum og athafna sig. Tvö ráð eru miklu áhrifameiri: Nota útiljós sem tengt er hreyfiskynjara og vekur athygli nágranna á mannaferðum, og/eða dauft ljós bak við gluggatjöld. Hinn óboðni veit ekki hvort einhver er heima og fælist ljósið sem kviknar. Venjið ykkur á að slökkva á útiljósum ef enginn er útivið. Takið tillit til nágranna ykkar. Notir dauf og vel skermuð útiljós, ljós sem lýsa niður, en ekki fram.
Njótið þess að
vera án ljósmengunar utan þéttbýlis. Lærið að njóta fegurðar
himinsins. Venjulegur handsjónauki (t.d. 8x40) er allt sem til þarf auk
hinnar frábæru bókar Snævarrs Guðmundssonar Íslenskur stjörnuatlas.
Á einfaldan og fróðlegan hátt er
greint frá því hvernig best er að stunda stjörnuskoðun. Í bókinni, sem
er 144 blaðsíður, er mikill fjöldi mynda og stjörnukorta og aftast í
henni er örnefnakort af tunglinu. Bókinni fylgir snúningsskífa með
stjörnuhvelfingunni þar sem sést hvernig næturhimininn ber fyrir á öllum
tímum ársins og hvaða svæði hans hentar að skoða hverju sinni. Íslenskur
stjörnuatlas er fyrsta bókin um íslenska stjörnuhimininn.
Krækjur:
Vísindavefurinn: Hvað er átt við með ljósmengun, er það mikið vandamál á Íslandi og hvað er til ráða gegn því?
Stjörnuskoðun:
Til fyrirmyndar: Umhverfisstefna Borgarbyggðar tekur á ljósmengun. (Sjá grein 11).
Slæm og góð ljósker: Slæmar og góðar götulýsingar á Ástralíu
Alþjóðasamtök: International Dark Sky Association
Meira um ljósmengun: Áhyggjur stjörnuskoðunarfélags af vaxandi mengun (PDF grein á íslensku) |
.