Betra en “endurheimt votlendis”…

 

Oft hefur mér komið til hugar að “endurheimt votlendis” með því að fylla í skurði sé kolröng aðferð til að minnka losun koltvísýrings

Miklu vænlegra er að rækta skóg á landinu, eða einfaldlega friða það og leyfa sjálfsáðum plöntum að vaxa.

Á myndinni efst á síðunni má sjá hvernig fyrrum votlendi hefur gerbreytt um svip á fáum áratugum. Þarna var landið ræst með mörgum skurðum, en hefur lengi verið laust við ágang hesta og kinda. Svona skógur er væntanlega duglegur að binda koltvísýring og auðvitað miklu fallegri en einhver dýjamýri. Þarna hefur engu verið plantað. Allt er sjálfsáð. Bærinn á myndinni heitir Neðri Dalur.

Landið er sunnan Geysis og hefur Sigurður Greipsson væntanlega látið þurrka það upp fyrir löngu. Á myndinni hér fyrir neðan sjást þessir skurðir og hvernig myndin var tekin til vesturs.

Til þess að flýta fyrir að skógur vaxi upp nánast af sjálfdáðum mætti planta fáeinum birkiplöntum hér og þar, t.d. 100 stk. í hvern hektara, þ.e. um 10 metrar milli pantanna. Eftir nokkur ár fara þessi tré að bera fræ og verða frælindir. Sjálfsáðar plöntur fara að skjóta upp kollinum vítt og breitt. Á fáeinum áratugum verður birkiskógurinn þéttur og fallegur. Þetta kostar lítið sem ekkert, eða þrjá bakka af birkiplöntum í hvern hektara. Um 15.000 krónur kosta plönturnar samtals. Auðvitað verður einnig að girða landið fjárheldri girðingu.

Að sjálfsögðu má planta þéttar, nota fleiri tegundir en birki og jafnvel stunda formlega skógrækt. En til að koma til meira og minna sjálfsáðum skógi þarf litla fyrirhöfn.

Skurðakerfið leynir sér ekki.
Skurðakerfið leynir sér ekki.

 

Er skóg ég skóp…

 

Timinn

Hvernig fléttar maður saman tímann og lífið? Jafnvel tímann og eilífðina? Er það yfirhöfuð hægt? Hvernig kemur maður í veg fyrir að tíminn fljúgi frá manni?

“…Sed fugit interea, fugit irreparabile tempus, singula dum capti circumvectamur amore”

skráði rómverska skáldið Virgill fyrir langalöngu á blað. Hvernig blað? Það skiptir ekki máli. Ég skrifa á rafblað, Virgill skrifaði á sitt blað.

“…En meðan hann flýgur, flýgur tíminn og kemur aldrei aftur, meðan við göngum sem fangar ástar okkar á smáatriðum”.

Kannski er þetta nokkurn vegin merkingin. Kannski ekki. Það skiptir heldur ekki máli. Þetta var um svipað leyti og Jesús fæddist. Langt er síðan, en kveðskapur Virgils hefur ekki glatast í tímans rás.

Hvernig er hægt að koma í veg fyrir að tíminn fljúgi frá manni? Er það hægt? Jú með því að mynda fléttu tímans og lífsins, tímans og hugans.

Fyrir langalöngu setti ég lítil tré í jörð í Haukadal. Þau voru þá agnarsmá og bara eins árs greyin.   Í gær, 55 árum síðar, heimsótti ég þessi börn mín í skóginum fagra. Þau virðast hafa dafnað vel og eru nú miklu stærri en ég. Miklu fallegri. Hve mörg tré? Veit ekki, en kannski svosem þrjátíuþúsund. “Eittþúsundogtvöhundruð á dag í tuttuguogfimm daga” hugsa ég. Kannski meira, kannski minna. Í gær var ég stoltur. Þetta var nefnilega minn skógur.

Í dag rölti ég um annan skóg. Miklu minni. Fyrir fimmtán árum byrjaði ég að setja niður agnarsmá tré fullur bjartsýni í mitt eigið land skammt frá skóginum í Haukadal. Tíminn flaug meðan ég var fangi ástar minnar á smáatriðum eins og Virgill sagði. Trén sem ég hafði hlúð að fyrir hálfum öðrum áratug voru sum orðin stærri en ég. Næstum tvöfalt stærri. Íslenskt birki og erlendir nýbúar sem eru orðnir íslenskir þegnar. Nú horfði ég ekki lengur niður á trén, heldur upp til þeirra. Þau litu niður til mín og hvöttu til að gera meira. Kannski ég hlýði…

Tímafléttu mætti kannski kalla þetta. Eitt er þó víst að það hjálpar manni að skynja gang tímans og koma í veg fyrir að hann fljúgi frá manni með því að skapa skóg þó lítill sé.

Þannig varðveitum við okkar dýrmæta tíma… Tíminn minn er bara agnarsmár hluti eilífðarinnar…

Lifandi áburðarverksmiðja…


Birki og smári
Birki og smári

Þessi birkiplanta er umvafin smára. Smárinn er með rótarbakteríur sem vinna nitur eða köfnunarefni úr loftinu á sama hátt og lúpínan. Þess vegna er grasið í smárabreiðum yfirleitt grænna en annars staðar.

Í sumar sáði ég í tilraunaskyni smárafræi í skógarplöntubakka fyrir útplöntun. Notaði bæði hvítsmára og rauðsmára. Í hverjum bakka eru 40 skógarplöntur, t.d. birki. Landið er frekar ófrjótt og er hugmyndin að reyna að láta smárann framleiða áburð fyrir plöntuna og örva þannig vöxtinn fyrstu árin. Sem sagt, lifandi áburðarverksmiðja fylgir hverri plöntu.

Hér hefur smára verið sáð í skógarplöntubakka.
Hér hefur smára verið sáð í skógarplöntubakka.

Ég átti einnig nokkrar plöntur sem ég hafði sett í stærri potta með betri mold. Þær fengu einnig skammt af smárafræi í sumar fyrir útplöntun. Ein þeirra, sú sem er á myndinni, fór ekki í jörð, heldur hefur verið eins konar gæludýr til að dást að.  Væntanlega verður hún sett niður á góðum stað á næstunni þar sem auðvelt verður að fylgjast með henni, þ.e. á stað með ófrjósömum jarðvegi.

Plantan á myndinni hefur fengið óþarflega mikið af smárafræjum, en þetta er bæði hvítsmári og rauðsmári. Moldina smitaði ég með því að vökva með vatni sem búið var að smita með því að blanda smávegis af smitaðri mold í vatnið. Plantan virðist þrífast vel í smáranum og vera vel græn. Kannski bakteríurnar séu farnar að vinna sitt verk strax?

Það verður spennandi á næstu árum að fylgjast með þeim plöntum sem fengið hafa smára í vöggugjöf.

Smárafræin og smitið keypti ég í Líflandi. Fræið í 1 kg pokum. Smitið í litlum pokum, etv. um 100 g.

Birki og smari-2

Hin agnarsmáa 0,3% breyting í meðalhita jarðar á 150 árum…

Lóðrétti ásinn á líuritinu er þaninn gríðarlega mikið út. Stækka má mynd með því að smella á hana.
Lóðrétti ásinn á líuritinu er þaninn gríðarlega mikið út.
Stækka má mynd með því að smella á hana.

 

Síðastliðin 150 ár, eða frá um 1860 hefur meðalhiti jarðar hækkað um því sem næst 0,8°C.

Meðalhiti jarðar er um 15°C.   Á myndinni hér að ofan er reyndar sýnt frávik frá þessum meðalhita.   Þess vegna er lóðrétti ásinn kvarðaður frá -0,4° upp í +0,6°C. Lóðrétti ásinn nær yfir aðeins
1 gráðu, þ.e. sama og bilið milli tveggja strika á bleika mælinum hér fyrir neðan.   Þetta er gríðarleg stækkun, ef til vill  um 100-föld!

Þessi mikla útþensla á lóðrétta skalanum gerir það að verkum að almennt áttar fólk sig ekki á hver hitabreytingin er í raun.

Á bleika mælinum (reyndar hvítur mælir á bleikum vegg)  má sjá meðalhita lofthjúpsins við yfirborð  flökta milli áranna 1860 og 2010. Þar sjáum við betur hvað þetta er í raun lítil breyting. Hún er svo lítil að við yrðum hennar ekki vör í daglegu amstri. Á venjulegum degi er algengt að lofthitinn breytist 10 sinnum meira, og yfir árið miklu miklu meira. Þetta er minna en munur á hita í herbergjum heima hjá okkur.

Samt eru menn að metast og jafnvel rífast hástöfum um breytingar sem er aðeins 1/10 úr gráðu, eða jafnvel ennþá minna.

 

Hitamælir 1860-2010
Hitamælir 1860-2010

Við vitum að það var ámóta hlýtt og í dag fyrir 1000 árum, allnokkuð hlýrra fyrir 2000 árum og töluvert hlýrra en í dag fyrir um 3000 árum. Samt erum við að hræðast hlýindin sem við njótum í dag og  ásaka okkur um að hafa valdið þeim. Reyndar er þessum hlýindum aðeins misskipt. Hér á landi höfum við verið lánsöm og notið meiri hlýnunar en 0,8°, en það er önnur saga.

Maður hlýtur samt að dást að því hve stöðugur lofthiti jarðar er.
Í vísindum er vaninn að mæla hitann í Kelvin gráðum, en þar byrjar skalinn við alkul. Sólin hitar jörðina okkar frá alkuli í lífvænlegan hita, eða frá -273°C   í   +15°C að jafnaði.
Það er jafngilt hitun frá  0 K   til   288 K.

Á Kelvin skalanum er meðalhitinn 288K (um 15°C). Hitabreytingin gæti því verið frá 288,0K   í   288,8K. Þetta er ekki nema um 0,3% breyting sem verður að teljast lítið.    Merkilega lítið.

Einhver kann að malda í móinn og segja hækkunina vera mun meiri, eða frá 15,0°C   í   15,8°C sem er við fyrstu sýn um 5% hækkun. Það er þó markleysa að miða við Celcíus gráður. Við gætum alveg eins miðað við Farenheit og sagt hækkunina vera frá 59,0°F   í   60,5°F og fengið út 2,5% hækkun.  Nei, rétta aðferðin er að miða við Kelvin gráður og þá fæst 0,3% hækkun á síðastliðnum 150 árum.

 

Álíka hlýtt var fyrir 1000 árum og í dag.  Blái ferillinn nær til ársins 1854, en hefur verið framlengdur lauslega til dagsins í dag með rauðum lit. Ferillinn er samkvæmt mælingum í borholu á Grænlandsjökli. Sjá   www.climate4you.com ,  kafla “Global Temperature”.  Þetta er sem sagt á Grænlandi en ekki  meðalhiti jarðar, en gefur samt væntanlega í stórum dráttum hugmynd um þróunina. Nánar hér um hlýindin fyrir 1000 árum.

GISP-2 hitaferill frá Grænlandsjökli
GISP-2 hitaferill frá Grænlandsjökli

Sala á Landsvirkjun og sæstrengur til Englands í skoðun – Guð blessi Ísland…

 P R U F U S Í Ð A

Springur blaðran?

Ráðherra vill skoða sölu á Landsvirkjun. Fyrir andvirðið á að reisa spítala. Fyrirsjáanlegt er að eftir áratug, þegar búið verður að greiða niður skuldir af nýjum virkjunum, mun Landsvirkjun mala eigendum sínum gull.   Nýir eigendur munu græða á tá og fingri.   Gott fyrir þá, en ekki mig.

Ráðherra vill einnig skoða lagningu sæstrengs til Englands. Annar ráðherra, Charles Hendry, fyrrverandi orkumálaráðherra Bretlands, er á fullu að fjármagna verkefnið.   Hefur bara sísona tekið að sér að stjórna málum á Íslandi.    Hver mun græða?   Varla ég.

Fyrir nokkrum árum  var Landsíminn seldur ásamt öllu dreifikerfinu. Andvirðið átti að renna til nýs Landspítala og Sundabrúar.  Símapeningarnir  reyndust bara loft.  Kannski var hugmyndin að spítalinn yrði uppblásinn eins og íþróttahúsið í Hveragerði og Sundabrúin loftbrú? Ég tapaði heilum spítala og heilli brú yfir hafið.  

Fyrir nokkrum árum voru bankar ríkisins seldir nýjum eigendum. Annar eigandinn fékk lánaða peninga fyrir sínum banka í hinum bankanum, og öfugt. Þeir áttu nefnilega ekki krónu. Allt reyndist þetta loft og blaðran sprakk með miklum látum.  Ég tapaði miklu af ævisparnaðinum og lífeyrissjóðurinn skerti eftirlaun mín um tæpan  helming.   Guð blessaði víst Ísland, en það dugði ekki til.